Vanhugsað Ákvörðunin um flöggun fánans er vanhugsuð að mati Kjartans.
Vanhugsað Ákvörðunin um flöggun fánans er vanhugsuð að mati Kjartans. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir harðlega þá ákvörðun meirihlutans í borgarráði að flagga fána Palestínu við ráðhús Reykjavíkur en ákvörðun þess efnis var tekin á sérstökum aukafundi ráðsins á fimmtudaginn síðastliðinn

Kjartan Leifur Sigurðsson

kjartanleifur@mbl.is

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir harðlega þá ákvörðun meirihlutans í borgarráði að flagga fána Palestínu við ráðhús Reykjavíkur en ákvörðun þess efnis var tekin á sérstökum aukafundi ráðsins á fimmtudaginn síðastliðinn.

„Mér finnst það fráleitt að flagga fána ríkis sem er undir stjórn hryðjuverkasamtaka. Það er bara algjörlega fráleitt og ég tel ekki vera hægt í þessu tilfelli að skilja í sundur fánann og ríkisstjórn ríkisins, ef ríkisstjórn skyldi kalla,“ segir Kjartan í samtali við Morgunblaðið.

Kjartan, sem er varafulltrúi í borgarráði, sat fundinn síðastliðinn fimmtudag í fjarveru Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Kjartan var sá eini á fundinum sem kaus á móti tillögunni en Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins og Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins sátu hjá í atkvæðagreiðslunni.

Greint var frá því í Morgunblaðinu á laugardaginn að eftir framkvæmd áhættumats vegna flöggunar fánans hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að grípa til ákveðinna mótvægisaðgerða öryggisins vegna. Meðal annars verður öryggisgæsla og vöktun í ráðhúsinu aukin auk þess sem ráðstafanir verða undirbúnar vegna hugsanlegra árása tölvuþrjóta á tölvukerfi borgarinnar. Niðurstaða áhættumatsins var meðal annars byggð á ráðgjöf frá ríkislögreglustjóra og utanríkisráðuneytinu.

„Ógnin er sennilega ekki mikil en þetta gefur samt til kynna hve vanhugsuð ákvörðunin er. Dæmin sanna þó að ógn sem stafar af hugsanlegum árásum tölvuþrjóta er raunveruleg og þarf að taka alvarlega. Ávinningurinn af því að draga fánann að húni er enginn og þessu fylgja óæskilegar aukaverkanir, enda er ég alfarið á móti þessu,“ segir Kjartan að lokum.

Höf.: Kjartan Leifur Sigurðsson