Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Ef vilji stendur til þess að styðja við atvinnulífið og auka verðmætasköpun ættu aðgerðir og forgangsröðun í þingsal að endurspegla það.

Bryndís Haraldsdóttir

Samstiga verkstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins setti sér í stjórnarsáttmála metnaðarfull markmið: að auka verðmætasköpun og bæta lífskjör landsmanna með því að efla atvinnulífið og hagræða í ríkisrekstri. Þegar litið er til forgangsröðunar í þingsal, fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar og álits fjármálaráðs blasir önnur mynd við – mynd af stefnu sem snýst að miklu leyti um hærri skatta, fleiri gjöld og meiri álögur.

Skattar eru ekki lausnin

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eru lagðar til fjölmargar skattahækkanir: auknar álögur á ferðaþjónustu, hækkun kolefnisgjalda, aukin skattlagning á sjávarútveg, fiskeldi og óskilvirkt kílómetragjald svo dæmi séu tekin. Það sem vantar er raunveruleg stefna um hvernig efla megi framleiðni og vaxtargetu hagkerfisins. Í því samhengi má velta fyrir sér hversu mikil áhersla er í raun lögð á að skapa ný verðmæti og virkja vaxtarbrodda samfélagsins – ekki aðeins að endurdreifa verðmætum sem fyrir eru og fikta í stærð kökunnar.

Sérstaklega varar fjármálaráð við því að ávinningur af hagræðingu í opinberum rekstri sé nýttur til að fjármagna ný verkefni, í stað þess að bæta afkomu ríkissjóðs eða lækka skuldir. Þvert á móti virðist meginlína ríkisstjórnarinnar sú að leysa vandamál með meiri álögum. Gaman væri að heyra dæmi um ríki þar sem slík stefna hefur skilað sér í aukinni samkeppnishæfni landsins og auknum lífsgæðum íbúa.

Stjórnarsáttmálinn segir annað

Þessi nálgun rímar illa við yfirlýsingar í stjórnarsáttmála, þar sem beinlínis segir að ríkisstjórnin ætli að vinna að aukningu verðmætasköpunar í atvinnulífi og skapa hagstæð rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki. Í tillögu að fjármálaáætlun er beinlínis viðurkennt að skattar hafi almennt neikvæð áhrif á verðmætasköpun, en það orð í eigin þingskjölum hafa hingað til ekki stoppað stjórnarliða í að halda hinu gagnstæða fram.

Ef vilji stendur til þess að styðja við atvinnulífið og auka verðmætasköpun ættu aðgerðir og forgangsröðun í þingsal að endurspegla það. En það sem nú er boðað eru auknar álögur á helstu útflutningsgreinar – með tvísýnum áhrifum á atvinnu, framleiðni og samkeppnishæfni.

Ég hvet ríkisstjórnina til þess að fylgja eigin sáttmála og koma með raunveruleg verkefni sem styðja við atvinnulífið og stuðla að aukinni verðmætasköpun.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Bryndís Haraldsdóttir