Kanslarinn Friedrich Merz talaði fyrir harðari útlendingastefnu í kosningabaráttunni og nú eru breytingar að koma í ljós gagnvart Sýrlendingum.
Kanslarinn Friedrich Merz talaði fyrir harðari útlendingastefnu í kosningabaráttunni og nú eru breytingar að koma í ljós gagnvart Sýrlendingum. — AFP/Tobias Schwarz
32 ára sýrlenskum karlmanni var í lok síðustu viku vísað úr landi í Austurríki. Maðurinn hafði hlotið alþjóðlega vernd í landinu árið 2014 en var sviptur verndinni og vísað úr landi vegna afbrota sem hann hafði framið

Kjartan Leifur Sigurðsson

kjartanleifur@mbl.is

32 ára sýrlenskum karlmanni var í lok síðustu viku vísað úr landi í Austurríki. Maðurinn hafði hlotið alþjóðlega vernd í landinu árið 2014 en var sviptur verndinni og vísað úr landi vegna afbrota sem hann hafði framið.

Austurríkismenn eru þar með fyrsta Evrópusambandsríkið sem vísar sýrlenskum flóttamanni úr landi í fjölda ára. Ekki var talið öruggt að vísa Sýrlendingum úr landi meðan á borgarastyrjöldinni í landinu stóð en frá falli einræðisstjórnar Bashars al-Assads í lok seinasta árs hafa ákveðin ríki Evrópusambandsins kallað eftir því að brottvísanir á Sýrlendingum hefjist, enda sé ekki lengur stríðsástand í landinu. Gerhard Karner innanríkisráðherra Austurríkis segir þetta hluta af nýrri og harðari hælisleitendastefnu landsins sem hann segir vera sanngjarnari fyrir íbúa landsins.

Þjóðverjar hefja brottvísanir

Í kjölfar ákvörðunar Austurríkismanna tilkynnti þýska innanríkisráðuneytið að það myndi beina þeim tilmælum til útlendingastofnunar Þýskalands að hefja að vísa úr landi þeim sýrlensku flóttamönnum sem gerst hafa sekir um afbrot eða eru taldir ógn við öryggi borgara í Þýskalandi.

Umræða var um þessa ákvörðun Þjóðverja á þýska þinginu um helgina en þar kom fram að 3.500 Sýrlendingar standa nú frammi fyrir brottvísun vegna afbrota sem þeir hafa framið en auk þess hafa 2.000 sýrlenskir flóttamenn skráð sig í sjálfviljuga brottför frá Þýskalandi og aftur til Sýrlands.

Um það bil ein milljón Sýrlendinga er búsett í Þýskalandi og komu flestir þeirra til landsins á árunum 2015 og 2016. Þjóðverjar hafa síðastliðin ár orðið fyrir barðinu á mannskæðum hryðjuverkaárásum af völdum flóttamanna sem dvelja í landinu.

Um það bil 20 umsóknir Sýrlendinga um alþjóðlega vernd hérlendis bíða þessa stundina afgreiðslu.

Útlendingastofnun er enn að meta aðstæður í Sýrlandi. Ákvörðun um framhaldið átti að liggja fyrir í maí en hefur frestast.

Höf.: Kjartan Leifur Sigurðsson