Viðtal
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
„Í ljósi alls þess sem hefði getað farið úrskeiðis, þá var leiðtogafundurinn ótrúlega vel heppnaður,“ segir dr. Benedikt Franke, en hann er framkvæmdastjóri Öryggisráðstefnunnar í München. Franke sótti leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Haag í lok júnímánaðar.
Hann segir að fundurinn hafi verið vel heppnaður að því leyti að virk þátttaka Bandaríkjanna í bandalaginu hafi verið tryggð, á sama tíma og öll bandalagsríkin samþykktu að halda sér á sporinu. „Hann var vel heppnaður, þar sem hann tryggði að við höfum öll svipaða, þó ekki sömu, sýn á hvaða ógnir steðja að bandalagsríkjunum. Og hann var vel heppnaður þar sem hann tryggði það að mun meira fjármagni verður nú varið til varnarmála,“ segir Franke, sem bætir við að það skipti minna máli hvort öll ríkin muni mæta markmiðunum nákvæmlega.
„Þegar þú horfir á áhrifin yfir allt, þá munu bandalagsríkin eyða mun meira til varnarmála á næstu tveimur árum, sama hver nákvæm prósenta þeirra af vergri landsframleiðslu (VLF) er, og það er mikill árangur,“ segir Franke. Þá sé ekki síður athyglisvert að útgjaldaaukanum hefur nú verið skipt í tvo hluta, annars vegar skuldbundu ríkin sig til að verja að minnsta kosti 3,5% af VLF á ári í bein útgjöld til varnarmála fyrir árið 2035, og hins vegar ætla þau að verja 1,5% af VLF til varnartengdra verkefna.
„Þetta markar risastóra vitundarvakningu hjá NATO og bandalagsríkjunum um að helstu veikleikar okkar liggja ekki í þeim fjölda skriðdreka sem þau ráða yfir, heldur í viðnámsþoli samfélaga okkar, áfallaþoli okkar mikilvægu innviða, þoli lifnaðarhátta okkar, lýðræðisins og hagkerfisins.“
Franke segir að ekki sé síst hægt að tala um vel heppnaðan NATO-fund þar sem hugur fylgi nú þegar máli. Hann bendir á að útgjöld til varnarmála hafa aulist umtalsvert og ríki eins og Þýskaland hafi breytt stjórnarskrá sinni til þess að geta varið meiru til varnarmála. „Og það táknar að NATO er á réttri leið.“
Franke segir að helstu áhyggjuefni sín eftir fundinn snúi að því að þótt Rússland hafi verið nefnt í yfirlýsingu fundarins sem langtímaógn við bandalagsríkin hefði hann kosið að Úkraínumenn hefðu fengið að vera í meiri forgrunni á fundinum sjálfum. „Ég óska þess að við hefðum ekki haft þetta rifrildi um hvort Selenskí Úkraínuforseti fengi hlutverk á fundinum eða ekki. Ég hefði kosið að [Úkraínumenn] hefðu verið í miðpunkti á fundinum, því að þegar allt kemur til alls eru það þeir sem eru að verja framlínu okkar.“
Yfirlýsing fundarins þótti í styttri kantinum að þessu sinni, og féllu út ýmis atriði sem nefnd voru á síðasta leiðtogafundi. „Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilinn, þá er það ekki vandamál,“ segir Franke. „Það er ekki vandamál að þetta var stysti leiðtogafundur NATO frá upphafi. Það er ekki vandamál að yfirlýsingin var, að ég held, sú stysta frá upphafi. Því þegar öllu er á botninn hvolft er það niðurstaðan sem skiptir máli. Bandaríkin eru enn staðföst gagnvart bandalaginu og allir bandamenn eru að eyða meiru.“ segir Franke.
Hann bætir við nú sé bandalagið með skýra varnarstefnu og ljóst að Bandaríkin styðja við 5. grein Atlantshafssáttmálans. „Það voru helstu launin til að vinna og það tókst. Hvort yfirlýsing fundarins fari út í öll smáatriði er aukaatriði að mínu mati.“
Verður gott fyrir Ísland
Talið berst að Íslandi og þeim fyrirheitum sem stjórnvöld hér á landi hafa gefið um að þau ætli sér að ná 1,5% markmiðinu svonefnda. Aðspurður hvað Ísland hafi í raun fram að færa til Atlantshafsbandalagsins segir Franke að Ísland sé bandalaginu mjög mikilvægt og hafi margt fram að færa. Hann bendir á landið sé vel staðsett á Norður-Atlantshafi og búi að vel þjálfaðri landhelgisgæslu sem sinni hlutverki sínu á mjög mikilvægu hafsvæði og geti veitt bandalaginu stuðning ef þörf krefur.
Franke er mjög afdráttarlaus þegar 1,5% markmiðið og markmið íslenskra stjórnvalda um að standa við þau ber á góma, og segir að hin auknu útgjöld muni gera Íslandi kleift að bæta úr sumum af þeim veikleikum sem nú fyrirfinnist. „Þetta mun gera ykkur þolnari fyrir áföllum og um leið öruggari, og á þann hátt hjálpar það bandalaginu. Við erum að tala um hluti eins og að herða á öryggi og vernd mikilvægra innviða. Þetta mun meðal annars styrkja orkuöryggi, þetta mun búa til hluti eins og skýli og aukna getu í heilbrigðisgeiranum. Allt þetta verður gott fyrir Ísland til að byrja með, og ef það er gott fyrir Ísland, þá er það gott fyrir bandalagið.
Þessir fjármunir munu hjálpa ykkur að bæta úr veikleikum og draga úr hættunni á því að þeir verði nýttir af sameiginlegum andstæðingum okkar eða af þeim sem vilja skaða Ísland og/eða NATO. Ég held ekki að nokkur maður trúi því að Ísland þurfi sinn eigin her eða flota, þið eruð einungis um 400.000 talsins eða svo. En ef þið hafið styrkta innviði, samfélag sem er með áfallaþol, ef þið hafið dregið úr hæði ykkar gagnvart öðrum og dregið úr áhættu, þá verðið þið enn betri bandamaður þegar fram líða stundir,“ segir Franke.
Munu bara svindla á sjálfum sér
Nokkur gagnrýni hefur komið fram í Evrópu á 1,5% markmiðið, þar á meðal í þýskum fjölmiðlum á borð við Der Spiegel. Þar hefur verið nefnt sem dæmi að ríki Evrópu sjái sér nú leik á borði að fara í alls kyns innviðauppbyggingu sem tengist vörnum lítið sem ekki neitt. Messina-brúin svonefna, sem ítölsk stjórnvöld hafa lengi haft áform um að reisa á milli meginlands Ítalíu og Sikileyjar, hefur verið nefnd í því samhengi.
Franke segist aðspurður þekkja til þeirrar umfjöllunar sem undirritaður vísar til og segir að sér finnist lítið til hennar koma, þar sem viðkomandi blaðamenn hafi ekki kynnt sér þau gögn sem lágu að baki ákvörðuninni á leiðtogafundinum um 1,5% markmiðið.
„Það var mjög ljóst að þetta snýst ekki um að reisa brýr. Já, ef ríki vilja setja þannig útgjöld undir 1,5% hattinn, leyfum þeim það. Þegar allt kemur til alls eru þau bara að skaða sig sjálf. Messina-brúin mun ekki gera Ítalíu eða NATO öruggara. Hún er frábært verkefni sem mun skipta máli fyrir efnahaginn og svo framvegis, en hún er ekki það sem verið er að tala um, því að mun hún gera Ítalíu þolnari fyrir áföllum? Svarið er nei,“ segir Franke.
„Horfum á málin í víðara samhengi. Ef bandalagsríkin vilja svindla, allt í lagi. En í því tilfelli, þá eru þau ekki að svindla á bandalaginu. Þau eru að svindla á sjáfum sér. Og ég trúi því innilega að ríkin muni á endanum átta sig á því að setja skynsamlega hluti undir hattinn,“ segir Franke.
„Það mun taka sinn tíma. Það mun taka tíma þar til við höfum öll áttað okkur á því hvað eigi heima í 1,5% markmiðinu. Og það er til listi af um 250 ráðstöfunum sem hægt væri að eyða fjármagninu í, og sá listi er að mínu mati mjög góður og ítarlegur,“ segir Franke.
Hann bætir við að ef ríki geti rökstutt það að brú muni gera land sitt og samfélag öruggara, þá sé það góður möguleiki að hægt verði að fella það undir 1,5% markmiðið. „Við þurfum ekki að vera smásmuguleg varðandi þetta. Við viljum bara að allir bandamenn fái meira viðnámsþol og verði þolnari gagnvart áföllum, og við viljum að bandalagsríkin verði meðvitaðri um það hvar veikleikar þeirra liggja, og ég tel þetta stórt skref fram á við,“ segir Franke.
„Sú staðreynd að NATO geti nú verið miðlæg stofnun fyrir þessa þætti, líkt og það hefur verið í 75 ár gagnvart hernaði, mun að mínu mati styrkja varnir okkar,“ segir Franke að lokum.