Í kjölfar öryggisráðstefnunnar í München sem haldin var nú í febrúar snerist umræðan að fundi loknum að miklu leyti um þá gjá sem virtist hafa myndast á milli hinna nýju stjórnarherra í Bandaríkjunum og hinna bandalagsþjóðanna í NATO. Nú er hins vegar annað hljóð komið í strokkinn, og hafa flestar fregnir eftir NATO-fundinn snúið að betri samskiptum milli Washington og hinna.
Franke segist sammála því að umræðan sé jákvæðari nú, en tekur strax fram að öryggisráðstefnan 2025 hafi snúist um mun meira en hina frægu ræðu sem JD Vance varaforseti flutti í München. „En það er rétt hjá þér, hún greip fyrirsagnirnar um allan heim,“ segir Franke. Hann bætir við að ræða Vance hafi nánast verið skólabókardæmi um hvernig eigi að beita þrýstingi í alþjóðamálum en að mjög skiptar skoðanir séu á henni.
„Sumir telja þetta sönnun þess að við [Bandaríkin og Evrópa] séum ekki lengur sambærileg. Ég trúi því ekki að svo sé, og ég tel að NATO-fundurinn hafi sýnt fram á mun uppbyggilegri og afkastameiri nálgun á sum af erfiðari viðfangsefnunum,“ segir Franke.
Hann bendir á að öryggisráðstefnan hafi staðið fyrir viðburði í Washington-borg í maí sl. þar sem Vance var einnig gestur og ræddi þar málin á mjög uppbyggilegan hátt. „Ég trúi því, eins og JD Vance sagði, að þrátt fyrir skoðanamun í ýmsum málum séum við enn í grundvallaratriðum – og hér vitna ég beint í hann – „í sama siðmenningarliði“ og ég tel að það sé góðs viti. Á sama tíma tel ég það ekki draga úr mikilvægi þess verkefnis okkar að útskýra betur það gildi sem samskiptin yfir Atlantshafið hafa fyrir bandarískum kjósendum,“ segir Franke.
„Hvers vegna er það þess virði að fjárfesta áfram í Atlantshafsbandalaginu? Hvers vegna er það þess virði að byggja áfram ofan á þetta samband? Ég tel að við Evrópubúar höfum ekki verið mjög góðir í að halda fram og ítreka okkar málstað og tel að við þurfum að gera eins mikið og við getum, nú þegar við þurfum loksins að bera meira af byrðunum.“