Ragnar Árnason
Ásgeir Daníelsson hagfræðingur (hér eftir ÁD) ritar grein í Morgunblaðið 4. júlí sl. Greinin hefur hagfræðilegt yfirbragð en er við nánari skoðun aðallega samansafn af hagfræðilegum misskilningi og endaleysum auk staðlausra dylgja um mistök annarra.
Hugsmíðin „auðlindarenta“
ÁD byggir mjög á því sem hann kallar auðlindarentu í grein sinni. Gallinn við þann málflutning er að hagnað í atvinnuvegum er ekki unnt að rekja til þeirra náttúruauðlinda sem þeir kunna að nýta. Ástæðan er einföld. Þegar aðföng eru mörg, eins og alltaf er í framleiðslu og svo sannarlega í fiskveiðum, er það alþekkt hagfræðileg niðurstaða að ekki er unnt að heimfæra hagnaðinn eða hluta hans til einhverra einna aðfanga eins og tiltekinnar náttúruauðlindar. Öll aðföngin, þar með talið vinnuaflið, tæknin, fjármunirnir og stjórnunin, eiga hér sameiginlegan hlut að máli og þáttur hverra og einna er ekki aðgreinanlegur og því ekki mælanlegur. Af þessari ástæðu er það afar villandi, svo ekki sé meira sagt, að kenna hagnað við einhver tiltekin aðföng sem notuð eru í framleiðslunni, hvort sem það er vinnuaflið í svokallaðri vinnugildiskenningu sósíalismans áður fyrr eða náttúruauðlindir nú á dögum.
Til að sjá hversu fráleitt það er að telja að hagnaður í fiskveiðum stafi frá auðlindinni og engu öðru nægir að leiða hugann að því að þessi hagnaður var sáralítill á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar þegar fiskistofnar voru miklu stærri en þeir eru nú.
Hagræn renta og samhengi við hagnað
Hagræna rentu (hér eftir í styttingarskyni nefnd renta) er á hinn bóginn unnt að skýrgreina á samkvæman hátt í hagfræði og því hugsanlegt en væntanlega vandasamt að mæla hana í reynd. Hagræn renta getur t.d. verið sá viðbótarhagnaður sem fæst við aukningu framleiðslu ekki ólíkt því sem ÁD ræðir. Þessi viðbótarhagnaður stafar hins vegar af öllum þeim aðföngum sem notuð eru við framleiðsluna eins og var útskýrt og ekki unnt að rekja hann til einhverra einna aðfanga.
Ef ÁD hefði haft fyrir því að kynna sér fyrirliggjandi hagfræði um rentu myndi hann vita að ekkert samhengi er milli rentu og hagnaðar. Renta getur bæði verið meiri og minni en hagnaður. Renta getur t.d. verið jákvæð þótt hagnaður sé neikvæður. Tilvera rentu er því ekki mælikvarði á getu til að greiða skatta. Því er það einungis til að flækja málið og villa fólki sýn að blanda rentu, svo ekki sé nú minnst á viðrinishugtakið auðlindarentu, inn í umfjöllun um skattlagningu á sjávarútveg.
Verð á nýtingarrétti er ekki mælikvarði á rentu
Það er misskilningur hjá ÁD að markaðsverð á aflamarki (sem hann kallar kvóta) sé mælikvarði á rentu. Þetta gæti að vísu átt við í einstofna fiskveiðum en alls ekki í fiskveiðum eins og íslenskum botnfiskveiðum þar sem fleiri en ein kvótabundin fisktegund er í afla. Af þessum sökum eru engar forsendur til að álykta um rentu af markaðsverði einstakra aflakvóta. Því eru þær umfangsmiklu ályktanir um rentu sem Ásgeir dregur af markaðsverði þorskkvóta byggðar á sandi.
Upphafleg úthlutun og keyptar aflaheimildir
Það er staðreynd sem ÁD reynir ekki að andmæla að þorri þeirra varanlegu aflaheimilda sem urðu til við upphaf aflamarkskerfisins í botnfiskveiðum hefur skipt um hendur. Fullyrðingar hans um að þessi viðskipti hafi að verulegu leyti verið fram og til baka milli hinna upphaflegu eigenda eru hins vegar rangar. Sú staðreynd að fjöldi útgerðarfyrirtækja (í stórbáta-aflamarkskerfinu) er nú aðeins brot af því sem áður var sýnir að þorri upphaflegra aflamarkshafa hafa horfið úr greininni. Það merkir að þeim hefur verið greitt fyrir sinn hlut í væntanlegum framtíðarhagnaði greinarinnar og þeir útgerðarmenn sem enn eru í útgerð hafa reitt þá upphæð af hendi. Því blasir við að það er hreint óréttlæti að skattleggja hinn meinta umframhagnað (sem ÁD vill kalla auðlindarentu) sem núverandi útgerðarmenn hafa keypt fullu verði af öðrum. Það er reyndar tvöfalt óréttlæti því þeir sem seldu og fengu fulla greiðslu fyrir fá nú væntanlega einnig til viðbótar hlutdeild í veiðigjaldinu sem ríkið innheimtir.
Hitt er síðan annað mál að þjóðhagslegur hagnaður af notkun aflaheimildar minnkar ekki þótt hún sé seld. Að þessu leyti hefur ÁD rétt fyrir sér. Málið, sem ÁD virðist ekki vilja horfast í augu við, er hins vegar að kaupandi aflaheimildarinnar fær ekki nema mjög lítinn hluta þessa hagnaðar. Hinn hlutinn situr eftir hjá seljandanum.
Dæmið er í grunninn mjög einfalt. Gerum t.d. ráð fyrir því að væntanlegur hagnaður af notkun aflaheimildar sé kr. 100 og kaupandinn greiði kr. 95 fyrir hana. Væntur hagnaður hans af viðskiptunum er þá kr. 5. Sá hagnaður snýst hins vegar í tap kaupandans ef hið opinbera skattleggur hinn væntanlega þjóðhagslega hagnað, þ.e. kr. 100, um meira en 5%.
Raunveruleg fjárbinding og arðsemi eigin fjár í fiskveiðifyrirtækjum
Það er vissulega unnt að fallast á það með ÁD að tölur um eignavirði í efnahagsreikningi fiskveiðifyrirtækja séu óáreiðanlegar. Það eru hins vegar augljósar ýkjur að þær séu svo marklausar að upplýsingagildi reikninga Deloitte á arðsemi eigin fjár í sjávarútvegi sé ekkert.
Raunar vill svo vel til að við vitum í meginatriðum hver skekkjan í þessu eignamati er. Eins og ÁD útskýrir í grein sinni eru aflaheimildir því aðeins eignfærðar að þær hafi verið keyptar. Virði upphaflegu aflaheimildanna, þeirra sem aldrei hafa verið seldar (og Ásgeir telur umtalsverðar), er því ekki fært til eignar í efnahagsreikningi, þótt þær hafi sama markaðsvirði og hinar. Þetta merkir einfaldlega að raunveruleg fjárbinding í sjávarútvegsfyrirtækjunum er að sama skapi hærra. Þar með er raunveruleg arðsemi eigin fjár þeirra minni en Deloitte reiknaði en ekki hærri eins og ÁD vill vera láta.
Tilhæfulausar fullyrðingar um mistök
Að lokum er rétt að geta þess að fullyrðingar ÁD um mistök í skýrslu Hagrannsókna sem birt er á heimasíðu SFS eru tilhæfulausar. Þær fullyrðingar voru fyrst settar fram af ÁD í Heimildinni árið 2021 og var þá svarað um hæl (sjá Heimildin 15. júlí 2021). Þessar fullyrðingar um mistök sem ÁD endurtekur nú eru jafnrangar og þær voru þá. Í téðri skýrslu er því alls ekki haldið fram að eignatölur á efnahagsreikningi fiskveiðanna séu réttar og enn síður að viðskipti með aflaheimildir geti ekki verið milli aðila í greininni. Það er því fráleitt að halda öðru fram og enn fráleitara að SFS eigi að bergmála þá vitleysu á heimasíðu sinni eins og ÁD fer fram á.
Höfundur er prófessor emeritus.