Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Markmið Atlantshafsbandalagsins um að bandalagsríkin verji allt að 1,5% af vergri landsframleiðslu sinni til uppbyggingar á varnartengdum innviðum og annarra varnartengdra verkefna skiptir gríðarlegu máli og mun styrkja bandalagsríkin, þar á meðal Ísland, til lengri tíma litið.
Svo segir dr. Benedikt Franke, en hann er framkvæmdastjóri Öryggisráðstefnunnar í München, í viðtali við Morgunblaðið í dag, þar sem hann ræðir niðurstöðu nýafstaðins leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Haag.
Franke er mikill Íslandsvinur, og hefur heimsótt landið mörgum sinnum í tengslum við Hringborð norðurslóða, Arctic Circle, en öryggisráðstefnan hefur sent fulltrúa þangað og staðið að viðburðum í tengslum við hringborðið. Hann segir að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að fylgja 1,5% markmiðinu muni styrkja landið og gera það að enn betri bandamanni.
„Ég tel að það sé ekki of mikið að biðja um að 1,5% af VLF sé varið í hluti sem munu gera ykkur og samfélag ykkar, land ykkar, öruggara. Þetta eru ekki hernaðarútgjöld í dulargervi. Það er ekki verið að lauma að hernaðarútgjöldum inn um bakdyrnar,“ segir Franke meðal annars, en 1,5% af VLF Íslands nemur nú um 70 milljörðum íslenskra króna.
„Þessir fjármunir munu hjálpa ykkur að bæta úr veikleikum og draga úr hættunni á því að þeir verði nýttir af sameiginlegum andstæðingum okkar eða af þeim sem vilja skaða Ísland og/eða NATO. Ég held ekki að nokkur maður trúi því að Ísland þurfi sinn eigin her eða flota, þið eruð einungis um 400.000 talsins eða svo. En ef þið hafið styrkta innviði, samfélag sem er með áfallaþol, ef þið hafið dregið úr hæði ykkar gagnvart öðrum og dregið úr áhættu, þá verðið þið enn betri bandamaður þegar fram líða stundir,“ segir Franke m.a. í viðtalinu.