Ragnar Árnason hagfræðingur fjallar í grein í blaðinu í dag um auðlindarentu og bendir á að hana sé ekki hægt að mæla. Öll aðföng framleiðslunnar, þar með talið vinnuaflið, tæknin, fjármunirnir og stjórnunin, eigi sameiginlega þátt í niðurstöðu rekstrarins. Ekki sé hægt að aðgreina þættina og því ekki hægt að mæla þá. Því sé það „afar villandi, svo ekki sé meira sagt, að kenna hagnað við einhver tiltekin aðföng“.
Ragnar bætir því við að til að sjá „hversu fráleitt það er að telja að hagnaður í fiskveiðum stafi frá auðlindinni og engu öðru nægir að leiða hugann að því að þessi hagnaður var sáralítill á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar þegar fiskistofnar voru miklu stærri en þeir eru nú“.
Þá segir Ragnar þorra upphaflegra aflamarkshafa horfna úr greininni. „Það merkir að þeim hefur verið greitt fyrir sinn hlut í væntanlegum framtíðarhagnaði greinarinnar og þeir útgerðarmenn sem enn eru í útgerð hafa reitt þá upphæð af hendi,“ segir hann og bætir við að það sé hreint óréttlæti að skattleggja hinn meinta umframhagnað sem núverandi útgerðarmenn hafi keypt fullu verði af öðrum. » 16