Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Samhliða stækkun Garðabæjar og íbúafjölgun er mikilvægt að halda í þorpsbraginn, sem alltaf hefur verið, og slíkt tel ég raunar að hafi tekist. Hér í þorpinu, á besta stað á höfuðborgarsvæðinu, eru íbúar gjarnan vel upplýstir um helstu mál í umhverfi sínu, láta sig þau varða og koma viðhorfum sínum á framfæri. Boðleiðir milli bæjaryfirvalda og íbúa eru stuttar og því oft hægt að bregðast hratt og örugglega við erindum og athugasemdum,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ.
„Sjálfur reyni ég mikið að vera á ferðinni hér um bæinn, hitti fólk og heyri hvernig landið liggur. Það er einnig mjög mikilvægt að íbúarnir hafi frumkvæði að góðum málum í nærumhverfi sínu. Á dögunum var til dæmis efnt til almenningshlaups í Urriðaholti til stuðnings fjölskyldu þar sem faðirinn berst við erfið veikindi. Samhugurinn þarna segir mikið, en einnig að söfnunin gekk vel og afraksturinn kemur í góðar þarfir. Einmitt þetta lýsir vel góðum bæjarbrag.“
Iðandi líf í nýju hverfi
Garðbæingar voru samkvæmt tölum í lok síðustu viku 20.832. Fjölgun íbúa hefur verið jöfn og stígandi síðustu ár og uppbyggingarsvæðin hafa verið nokkur. Nú er til dæmis kominn nokkuð heildstæður svipur á Urriðaholt, syðst og austast í bænum, þar sem nú búa um 4.000 manns. Í því hverfi er iðandi líf og margt skemmtilegt að gerast, samanber að barnafjölskyldur þar eru margar. Fyrir vikið hefur verið áherslumál af hálfu Garðabæjar að standa vel að leikskólum hverfisins og að tryggja að foreldrar kæmu börnum sínum að þar eftir að fæðingarorlofi lýkur. Uppbygging á Urriðaholtsskóla er síðan á lokastigi, en síðasti áfanginn, sem hýsir m.a. íþróttahús og sundlaug, verður tekinn í notkun næsta vor.
„Mér finnst okkur hafa tekist vel til í Urriðaholti með samspili byggðar, grænna svæða, göngustíga og annars slíks. Sjónásarnir, sem skipulagsfræðingar kalla svo, spila vel saman í byggð þar sem rúmt er um allt. Sama má raunar líka segja um Álftanesið; þar sem er lágreist byggð, meðal annars fjölbýlishús sem þó eru aldrei hærri en þrjár hæðir. Þarna höfum við lagt áherslu á að byggð og víðerni í kring spili vel saman og náttúran fái að njóta sín,“ segir Almar um þessi hverfi. Urriðaholt er nálægt því að vera fullbyggt en uppbygging á Álftanesi mun standa yfir næstu ár.
Hnoðraholt á besta stað
Helsta uppbyggingarsvæðið í Garðabæ í dag er Hnoðraholt austast í bænum við sveitarfélagamörk Garðabæjar og Kópavogs. Þar verður samsetningin fjölbreytt; fjölbýli og sérbýli sem eru á útsýnislóðum á besta stað. „Við höfum einmitt undanfarin misseri lagt áherslu á úthlutanir sérbýlislóða við góðar undirtektir,“ tiltekur bæjarstjórinn.
Vænta má að fyrstu íbúarnir komi í Hnoðraholt síðar á þessu ári og enn frekar á því næsta. Þessu fylgir að huga þarf að innviðauppbyggingu, svo sem í skólum, og þá einnig fyrir nýja byggð í Vetrarmýri við Vífilsstaði. Almar segir að undirbúningur þess sé hafinn og framkvæmdir við nýja skólabyggingu verði teknar í áföngum. Hugsanlega mun nýr skóli hefja starfsemi með nemendur úr 1.-4. bekk grunnskólans og svo stig af stigi. Hnoðraholt og Vetrarmýri njóta þess á fyrstu misserunum að vera í nánd við sterka skólainnviði sem þegar eru fyrir hendi í bænum.
„En svo er nauðsynlegt að hafa heildarsýn á bæinn og verkefninu lýkur aldrei. Það er margt umleikis hér í innbænum; í gamla Garðabæ eins og margir kalla svæðið. Gera á Garðatorg og næsta nágrenni meira aðlaðandi meðal annars fyrir ýmiss konar viðburðahald og þjónustu, en miðbærinn okkar er að springa út sem sterkur verslunarreitur og menningarkjarni. Göngugatan á Garðatorgi verður endurbyggð næsta vetur og fleira hér í grennd. Þess utan má geta þess að húsnæði grunnskólanna hér í grenndinni, það er Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Garðaskóla, hefur verið tekið í gegn. Upphaflega voru þessar endurbætur viðbragð vegna mygluskemmda en með öllu sem þarna fylgdi má segja að skólahúsin hafi verið endurnýjuð og henti því mun betur en áður miðað við starf og kennsluhætti dagsins í dag,“ segir Almar.
Skólamál í skoðun
Víkur þá tali að starfsemi grunnskólanna í Garðabæ, sem eru alls átta. Nærri lætur að um helmingur af útgjöldum hvers sveitarfélags fari í fræðslumál. Eðlilegt er því að litið sé til þess hvernig til sé að takast og þar má marga kvarða nota. Þarna tiltekur Almar að unglingar úr Garðabæ, sem lokið hafa 10. bekk þar í bæ og eru komnir í framhaldsskóla, þyki almennt standa sig vel. Vísar bæjarstjórinn þarna til óformlegra upplýsinga úr meðal annars MR, FG og Verzló, skóla sem Garðabæjarkrakkar fara mikið í.
„Fyrir liggur yfirlit um hvernig um það bil 2.300 nemendur grunnskólanna hér í bæ standa og almennt er sú staða góð. Við höfum okkar eigin mælikvarða og matsgögn og vinnum að meiri samræmingu námsmats milli skólanna okkar. Hjá Miðstöð mennta og skólaþjónustu veit ég að nú er verið að yfirfara ýmsa matsferla og við vonum að þeir geti orðið verkfæri til að greina stöðuna enn betur. Gæðastarf í skólum skiptir miklu, en auðvitað líka að börnunum líði vel á þessum vinnustað sínum og að þeim sé mætt, hverjum á sínum stað,“ segir Almar og heldur áfram:
„Núna erum við til dæmis að efna til samstarfs við aðila sem ætlar að koma upp sérskóla fyrir einhverf börn hér í bænum. Þegar horft er yfir sviðið þá tel ég að við höfum sem samfélag um of trúað á „skóla án aðgreiningar“ sem allsherjarlausn. Hugsunin að baki henni er sannarlega góð og á margan hátt hefur reynslan hér í Garðabæ verið góð. Á hinn bóginn geta verið rök fyrir því að sérhæfa kennslu og nám meira þar sem það getur átt við. Nemendahóparnir eru orðnir mun fjölbreyttari en áður. Margir eiga til dæmis uppruna sinn erlendis og standa því ekki jafn vel að vígi í íslenskunni, sem krefst sérstakrar aðlögunar til að byrja með. Alls konar frávik í lífi og líðan koma einnig til. Allt kallar þetta á stöðugt endurmat.“
Sterk staða varin
Heildarútgjöld bæjarsjóðs Garðabæjar í ár eru um 26 ma.kr. og segir Almar stöðuna einkennast af því að grunnrekstur bæjarins sé að styrkjast. Fyrir um tveimur árum hafi bærinn verið í þeirri stöðu að verðbólga og háir vextir hafi tekið í, það er í sveitarfélagi sem hefur verið í hraðri uppbyggingu.
„Við fórum í markvissar aðgerðir fyrir tveimur árum. Við höfum hagrætt í rekstri og dregið úr ýmsum framkvæmdum. Það var erfið ákvörðun að hækka útsvar á sínum tíma. Það má samt ekki gleyma að íbúar hér búa enn við lágar álögur í samanburði við aðra og svo verður áfram. Í heild voru þetta nauðsynlegar og skynsamar aðgerðir til þess að styrkja grunnrekstur bæjarins. Allt var gert til varnar sterkri stöðu, sem tekist hefur að viðhalda,“ segir Almar að síðustu.
Hver er hann?
Almar Guðmundsson er fæddur árið 1972. Hann er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA-gráðu frá London Business School. Hann starfaði fyrr á tíð hjá Íslandsbanka og Glitni. Var framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og síðar Samtaka iðnaðarins – og í ýmsum störfum tengdum fjármálageiranum. Bæjarstjóri í Garðabæ frá 2022.