Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Það er enginn vafi á því að þessi úrskurður hefur engin áhrif þá réttarstöðu sem verið hefur og þeir sem keypt hafa veiðileyfi fyrir landi Iðu eiga rétt á því að veiða á því svæði sem alla tíð hefur verið veitt á,“ segir Guðmundur Ágústsson, lögmaður landeigenda Iðu í samtali við Morgunblaðið.
Svokölluð ósamatsnefnd felldi þann úrskurð sl. föstudag að ós Stóru-Laxár sé allnokkru neðar en hann hefur hingað til verið og fellur meginhluti Iðuveiðanna undir meint ósasvæði Stóru-Laxár.
Leigutaki Stóru-Laxár hefur gerst allaðsópsmikill á veiðisvæðinu við Iðu eftir að úrskurður ósamatsnefndarinnar gekk sl. föstudag og mætt með veiðimenn á sínum snærum á svæðið sem veiddu þar með fjórum stöngum. Því var veitt á sjö stangir á Iðu um tíma um helgina, enda þótt aðeins sé heimild til veiða þar með þremur stöngum. Það að veiða með fjórum stöngum til viðbótar þeim sem heimilt er að veiða á er sannarlega veiðiþjófnaður að mati Guðmundar, enda tók úrskurðurinn ekki til veiðiréttar við Iðu, aðeins til þess hvar matsnefndin telur að ós Stóru-Laxár gagnvart Hvítá sé. Árósinn er innan marka Iðujarðanna, en Iða á land upp með Stóru-Laxá að landamörkum við Eiríksbakka. Þá bendir Guðmundur á að samningur Bergsnasar, sem hefur veiðiréttinn í Stóru-Laxá á leigu, taki einungis til árinnar frá Eiríksbakka og upp úr, en ekki niður ána þar sem land Iðu liggur. Því sé um augljósan veiðiþjófnað að ræða sem hefur verið kærður til yfirvalda. Var t.a.m. lögregla kölluð til á Iðu um helgina.
Í ljósi þess hve aðgangsharður veiðirétthafi Stóru-Laxár hefur verið á veiðisvæðinu við Iðu segir Guðmundur að spurning sé hvort þeir sem keypt hafa veiðileyfi á Iðu þurfi að veiða þar undir lögregluvernd það sem eftir lifir sumars. Lögreglan hafi þó hingað til ekki séð ástæðu til afskipta, en það kunni að breytast í ljósi ástandsins sem upp er komið.
Í niðurstöðu matsnefndarinnar segir m.a. að það sé „forn meginregla íslensks réttar að hver maður eigi einn veiði fyrir sínu landi, þ.e. að saman fari eignarhald á landi og veiðiréttur í vatni eða á fyrir því landi. Af hálfu matsnefndar er áréttað að afmörkun á ósi Stóru-Laxár gagnvart Hvítá breytir í engu þeirri staðreynd að jarðamörk ráða hver eigi veiðirétt fyrir bakka einstakra jarða.“