Biðstaða Enn sér ekki fyrir endann á margra mánaða bið við Barónsstíg.
Biðstaða Enn sér ekki fyrir endann á margra mánaða bið við Barónsstíg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eigendur bakarísins Hygge bíða enn eftir leyfi frá Reykjavíkurborg til að opna nýtt bakarí við Barónsstíg 6. Í dag er 231 dagur síðan Axel Þorsteinsson rekstrarstjóri sótti fyrst um starfsleyfi. Eins og Morgunblaðið hefur greint frá tóku eigendur…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Eigendur bakarísins Hygge bíða enn eftir leyfi frá Reykjavíkurborg til að opna nýtt bakarí við Barónsstíg 6. Í dag er 231 dagur síðan Axel Þorsteinsson rekstrarstjóri sótti fyrst um starfsleyfi.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá tóku eigendur Hygge við húsnæðinu eftir að veitingastaðurinn Nebraska lagði upp laupana. Smávægilegar breytingar á húsnæðinu fóru illa í fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og síðan hefur allt verið eigendunum í mót. Auk neikvæðs viðhorfs fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins seinkaði útgáfu leyfis mikið vegna nýrrar reglugerðar sem felur í sér fjögurra vikna bið eftir leyfi meðan það er auglýst. Þegar loks fór að sjá fyrir endann á hremmingum Hygge-manna bárust athugasemdir frá nágrönnum við auglýsingunni. Á föstudag dró svo til tíðinda.

„Byggingarfulltrúi dró byggingarleyfi okkar til baka. Það er gert út af fyrirkomulagi ruslamála. Nú kemur á daginn að allir íbúar í húsnæðinu þurfi að samþykkja að það sé rusl fyrir veitingastað sem er undarlegt því að frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir veitingastað í þessu húsnæði og þarna var veitingastaður áður,“ segir Axel.

Teikningar vegna framkvæmda voru að sögn Axels samþykktar 4. mars síðastliðinn og jákvæð umsögn frá byggingarfulltrúa barst 23. maí. Sú umsögn var síðan dregin til baka á föstudaginn síðasta.

Axel bendir á að aðeins hafi verið gerðar minni háttar breytingar frá fyrri veitingastað í húsnæðinu; settir voru upp tveir gifsveggir, aukaofn, stór kælir og frystir auk þess að skipulag og hljóðeinangrun var bætt. Flest annað er óbreytt frá fyrri rekstri, þar á meðal sorpmál, vörumóttaka og útblástur.

Veitingamaðurinn segir að málið sé nú til skoðunar hjá lögmönnum en viðurkennir að þolinmæðin gagnvart borgaryfirvöldum sé á þrotum. „Þetta er náttúrlega gal­ið. Eftir margra mánaða vinnu er þetta enn þá að þvælast í kerfinu hjá Reykjavíkurborg og það er eins og enginn hafi stjórn á neinu. Það er markvisst verið að skemma Reykjavík með einhverju svona bulli.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon