Flóki Larsen
floki@mbl.is
Framkvæmdum við nýtt hringtorg á þjóðvegi eitt miðar vel. Á myndunum til hliðar má sjá hringtorgið í byggingu, en það mun liggja við Lónsveg á Akureyri. Hringtorgið tengir Lónsveg við hringveginn.
Tímarammi um verklok mun að öllum líkindum standast að sögn Karls Magnússonar hjá Nesbræðrum, sem eru verktakinn. Áætluð verklok eru í nóvember á þessu ári. Karl segir Nesbræður á undan áætlun en veðrið hefur unnið með þeim að hans sögn.
Fyrsta fasa verkefnisins er nú lokið. „Búið er að malbika hluta af nýju hringtorgi ásamt hjáleið. Umferð verður því beint út af þjóðvegi, inn á hjáleiðina, á meðan unnið verður við seinni hluta hringtorgsins,“ segir á facebook-síðu Nesbræðra. Þeir þakka fyrir tillitssemi vegfarenda undanfarna daga.
„Næsti áfangi hjá okkur er að taka þjóðveginn í sundur, framlengja nýtt ræsi í gegn og byggja upp seinni helming hringtorgsins. Samhliða því verður gangstétt við Lónsveg löguð og gengið frá köntum,“ segja Nesbræður um framhaldið.
Ökumenn verði að hægja á sér
Margir leggja leið sína um hringveginn á sumrin og Nesbræður hafa ekki farið varhluta af því. Á síðu sinni segja þeir að umferðin þyngist eftir því sem líður á sumarið.
„Framúrakstur er því miður tíður á svæðinu, vélunum okkar er ekki gefinn séns og margir gefa í til þess eins að hleypa okkur ekki inn í umferðina og/eða yfir veginn. Því biðlum við enn og aftur til allra að hægja á sér, sýna tillitssemi og svo sakar ekki jafnvel að brosa til þeirra sem eru að vinna á svæðinu. Þeir eru þarna fyrir ykkur,“ segja Nesbræður.
Karl segir að sem betur fer hafi flestir keyrt varlega þó að ekki hafi allir hægt á sér eins og skyldi. Hámarkshraðinn hefur verið lækkaður niður í 30 km/klst.
Umferðin hefur nú verið tekin alveg út af framkvæmdasvæðinu um hjáleið. Ökumenn geta nú keyrt á malbikinu sem hefur verið lagt fyrir hringtorgið. Því er umferðin fjær vinnumönnum en áður og minni hætta en áður.