Drónaárás Reykmökkur rís eftir árásir Rússlandshers í Karkív.
Drónaárás Reykmökkur rís eftir árásir Rússlandshers í Karkív. — AFP/Sergey Bobok
Rússnesk stjórnvöld hafa lýst því yfir að hersveitir Rússa hafi hertekið sitt fyrsta þorp í úkraínska héraðinu Dníprópetrovsk eftir mánaðalöng átök við mörk héraðsins. Héraðið á ekki landamæri að Rússlandi heldur er inni í miðju landinu

Rússnesk stjórnvöld hafa lýst því yfir að hersveitir Rússa hafi hertekið sitt fyrsta þorp í úkraínska héraðinu Dníprópetrovsk eftir mánaðalöng átök við mörk héraðsins. Héraðið á ekki landamæri að Rússlandi heldur er inni í miðju landinu.

Rússar hrintu í gærmorgun af stað stórfelldri dróna- og flugskeytaárás áður en yfirlýsingin var gefin út.

Héraðið er talið mikilvægt í stríðinu, m.a. vegna auðlinda sem felast í góðmálmum sem þar er að finna.

Dníprópetrovsk stendur utan við þau fimm héruð sem Rússar hafa opinberlega sagt að tilheyri sér. Það eru héruðin Dónetsk, Kerson, Lúhansk, Saporisjía og Krímskagi. Árásir Rússlandshers hafa að mestu leyti snúið að þessum héruðum auk höfuðborgarinnar, Kænugarðs.

Viðurkenna ekki yfirráðin

Stjórnvöld í Úkraínu hafa gefið það út að yfirráð Rússa í þorpinu í Dníprópetrovsk standist ekki skoðun. Þeir segja Úkraínuher hafa staðið af sér árás Rússa í nágrenni við þorpið Datsnje.

Friðar- og vopnahlésviðræðum milli ríkjanna tveggja hefur ekkert miðað áfram síðan fulltrúar ríkjanna hittust í Istanbúl í lok júní. Bandaríkin hafa haft milligöngu um vopnahlé milli ríkjanna en Rússar hafa ekki dregið úr árásum sínum síðan í Tyrklandi.

Rétt áður en þeir tilkynntu yfirráð sín í þorpinu fyrrnefnda vörpuðu þeir flugskeyta- og drónasprengjum af miklum móð, m.a. á tvennar æfingabúðir úkraínskra hermanna. Í það minnsta fjórir særðust í þeim árásum. Fjórir dóu og í það minnsta 30 slösuðust í öðrum árásum Rússa víðsvegar í Úkraínu í gær. floki@mbl.is