Sveitastörf Múgað á túnum í Landeyjum um helgina. Tíð hefur verð góð að undanförnu en nú er rigning í kortum.
Sveitastörf Múgað á túnum í Landeyjum um helgina. Tíð hefur verð góð að undanförnu en nú er rigning í kortum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Slegin tún, hey í múgum og rúllubaggar í ýmsum litum. Svona er staðan í sveitum á Suðurlandi þessa dagana; bændur eru í heyskap sem gengur alveg ljómandi vel. Rigningarspá fyrir næstu daga gæti þó ýmsu breytt

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Slegin tún, hey í múgum og rúllubaggar í ýmsum litum. Svona er staðan í sveitum á Suðurlandi þessa dagana; bændur eru í heyskap sem gengur alveg ljómandi vel. Rigningarspá fyrir næstu daga gæti þó ýmsu breytt. Eggert Pálsson, bóndi á Kirkjulæk í Fljótshlíð, og sonur hans Páll, sem býr á nágrannajörðinni Arngeirsstöðum, hafa staðið í stórræðum. Eftir snarpa vinnutörn um síðustu helgi eru á túnum alls 470 rúllur og þó er 1. slætti enn ekki lokið.

„Við ættum að ljúka 1. yfirferð nú í vikunni og þá förum við strax í þá næstu. Tíðin að undanförnu hefur verið góð og svo munar um hve moldin hér í Fljótshlíð er frjósöm og jarðvegur þykkur,“ sagði Eggert á Kirkjulæk þegar Morgunblaðið hitti hann í heyönnum.

„Ég man ekki eftir því í allri minni búskapartíð að hafa fengið jafn góð hey sem nú,“ segir Sigurður Ágústsson, bóndi í Birtingaholti í Hrunamannahreppi. Hann eins og fleiri bændur í uppsveitum Árnessýslu hefur á orði hve heyskapartíð hafi verið góð að undanförnu. Í maí hafi hitastig og væta verið í góðu jafnvægi svo gróður hafi þá strax komist á gott skrið. Kaldir dagar, einn og stundum fleiri, hafi engar skráveifur gert þannig að byrja mátti að heyja snemma í júní. Allt hafi gengið að óskum og nú um helgina lauk bóndinn í Birtingaholti með sínu fólki 2. slætti á túnum sem eru alls 120 hektarar.

„Enn eru tveir mánuðir eftir af sprettutíð, svo sum stykki hér gætum við sennilega slegið og heyjað af fjórum sinnum í sumar,“ segir Sigurður sem heyjar tún bæði í Birtingaholti og á nágrannajörðinni Syðra-Langholti. Jafnhliða búskap starfrækir hann verktakafyrirtækið Fögrusteina sem meðal annars sinnir heyöflun fyrir um 15 bændur í Árnessýslu. „Við erum langt komnir með að heyja fyrir kúabændurna,“ segir Sigurður.

Í Borgarfirði hefur heyskapur gengið ágætlega og kúabændur flestir lokið fyrri slætti. „Kuldadagar í júní hafa eitthvað seinkað sprettu. En almennt er staðan góð og nú er svigrúm til að taka sér nokkurra daga sumarfrí,“ segir Torfi Guðlaugsson, bóndi í Hvammi í Hvítársíðu.

Trausti Þórisson, bóndi á Hofsá í Svarfaðardal, lauk fyrri slætti sl. laugardag og vatt sér þá strax í aðra umferð á þeim túnum sem hann hafði slegið fyrst. „Heyin eru góð en tíðin erfið. Hér í dalnum þarf að nota hverja stund sem gefst í heyskap og þá sérstaklega fyrri part dagsins, því hér eru síðdegisskúrir landlægar.“

Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi á Straumi í Hróarstungu austur á landi, lætur vel af stöðunni. „Hér er alveg bongóblíða eftir rigningu í síðustu viku. Sprettan er því alveg frábær núna og allir í heyskap,“ segir Guðfinna.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson