Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Fyrsti skammturinn af nýjum íslenskum kartöflum á þessu sumri er væntanlegur í verslanir þegar kemur lengra fram í vikuna. Hjalti Egilsson, bóndi á Seljavöllum í Nesjum við Hornafjörð, var að gera vélar sínar klárar í gær og ætlar að byrja að taka upp úr görðum í dag.
„Þetta er allt að koma. Tíðin hefur verið góð að undanförnu og í kartöflurækt munar um hvern daginn. Við fengum kuldakast fyrir nokkru sem seinkaði öllu, en nú er kominn tími til að hefjast handa. Svo verður bara að sjá til hve mikið er undir grösum og hægt er að senda á markað,“ segir Hjalti í samtali við Morgunblaðið.
Nánast árvisst er að fyrsta kartöfluuppskera hvers sumars komi frá Seljavöllum, þar sem ræktað er á alls um 30 hekturum. Hjalti áformar að taka upp kartöflur nú í einum hektara: það eru fljótsprottnar premier. Eftir nokkra daga – undir lok vikunnar – verður svo byrjað að taka upp gullauga.
„Ég finn alltaf talsverða eftirvæntingu úti í samfélaginu fyrir því að nýjar kartöflur séu teknar upp og fari frá okkur. Hingað kemur flutningabíll og fer í bæinn með afurðirnar sem við pökkum en Bananar og Innnes dreifa. Úr þessum fyrsta umgangi reikna ég með að mest fari í verslanir Bónuss,“ segir Hjalti.
Og meira af gróðri jarðar, svo sem austan af Flúðum þar sem útiræktun á káli er stunduð í stórum stíl. Þar er sprettan góð, en tvær til þrjár vikur þurfa þó að líða héðan í frá uns uppskerutími hefst.