— Ljósmynd/Ari Magg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leifur Björnsson, yfirmaður útflutnings hjá Tónlistarmiðstöð, segir velgengni Gabríels Ólafs og Laufeyjar Línar á streymisveitum skapa tækifæri fyrir íslenska tónlistarmenn. Tilefnið er viðtal við tónskáldið og píanóleikarann Gabríel Ólafs í síðasta …

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Leifur Björnsson, yfirmaður útflutnings hjá Tónlistarmiðstöð, segir velgengni Gabríels Ólafs og Laufeyjar Línar á streymisveitum skapa tækifæri fyrir íslenska tónlistarmenn.

Tilefnið er viðtal við tónskáldið og píanóleikarann Gabríel Ólafs í síðasta sunnudagsblaði Morgunblaðsins en þar kom fram að lög hans hafa verið spiluð 400 milljón sinnum á streymisveitum. Til að setja það í samhengi jafngildir það að hver einasti Íslendingur myndi hlusta á lag eftir Gabríel þúsund sinnum.

„Þegar íslenskri tónlist hefur gengið vel á streymisveitum myndi ég álykta að íslensk tónlist sem á eftir kemur ætti að fá betra brautargengi á streymisveitum og betri staðsetningu á lagalistum,“ segir Leifur og bendir á þátt algríms í að greina tónlist eftir uppruna og tónlistartegund. Fyrir vikið hafi það keðjuverkandi áhrif ef íslenskur tónlistarmaður njóti vinsælda enda veki það athygli á íslenskri tónlist.

Gerir leiðina greiðfærari

„Það eru beinu áhrifin af vinsældum á streymisveitum. Ef íslenskum listamönnum gengur vel á streymisveitum þá gerir það almennt þeim auðveldara fyrir sem á eftir koma. Það er þó sagt með þeim fyrirvara að báðir þessir listamenn, Laufey og Gabríel, hafa starfað með erlendum fagaðilum að því að koma sér á framfæri,“ segir Leifur. Til dæmis sé Gabríel á mála hjá Decca US, dótturfyrirtæki Universal Records, sem sé stór alþjóðleg útgáfa.

„Og þótt Laufey sé tæknilega séð að mestu leyti sinn eigin útgefandi hefur hún unnið náið með öflugum umboðsmanni í Los Angeles og notið góðs af því samstarfi. Gabríel og Laufey hafa því leiðir til að koma tónlist sinni á framfæri hjá streymisveitum, sem undirstrikar mikilvægi þess að vera að vinna með öflugum erlendum fagaðilum. Þegar streymisveiturnar voru að ryðja sér til rúms og enn að reyna að ná í notendur fyrir hér um bil tíu árum voru enn dæmi um að tónlistarfólk næði eitt og óstutt mikilli spilun og kæmist inn á stóra erlenda lagalista. En maður hefur séð það vera að dvína. Þannig að samstarf við öfluga erlenda fagaðila er því orðið mikilvægt til þess að ná árangri á streymisveitum,“ segir Leifur.

Hefur mjög jákvæð áhrif

„Hitt er annað mál að þetta hefur mjög jákvæð áhrif á annað íslenskt tónlistarfólk sem á eftir að koma fram og springa út. Það er enda mjög jákvætt ef við eigum íslenskt tónlistarfólk sem nýtur svona mikillar velgengni,“ segir Leifur sem sér hliðstæðu í frumkvöðlastarfi; líkt og í tónlistinni sé álitið mikilvægt að sýnt hafi verið fram á ágæti hugmyndar. „Það auðveldar þeim sem á eftir koma að fara þessa leið. Fólk hefur þá enda ákveðnar hugmyndir þegar það heyrir talað um íslenska tónlist. Þau sem njóta slíkrar velgengni – þar með talið Laufey og Gabríel – leggja þá sitt á vogarskálarnar til þess að styrkja vitund um íslenska tónlist og um leið vörumerkið íslenska tónlist, ef svo má að orði komast,“ segir Leifur.

Margir efnilegir

Fegurðin við þennan geira er kannski ófyrirsjáanleikinn. Er einhver Laufey Lín eða einhver Gabríel á uppleið núna sem við eigum eftir að kynnast?

„Já, það er alltaf margt efnilegt tónlistarfólk á Íslandi og það hefur í raun verið alveg ótrúlegt að allan þann tíma sem ég hef verið að fylgjast með hefur alltaf eitthvað verið í pípunum. Við erum hér að ræða um listamenn sem hafa náð miklum árangri á streymisveitum. Það má ekki gleyma því að það eru líka listamenn að ná árangri víðar en mælast ekki jafn vinsælir á streymisveitum. Þá til dæmis hljómsveitir sem selja margar plötur en ná ekki í streymistölur. Einnig má nefna hljómsveitir sem geta selt marga miða á tónleika, sem skilar sér kannski heldur ekki í streymistölurnar, og þá mætti nefna kvikmyndatónskáld sem starfa á efstu þrepum í kvikmyndum og sjónvarpi og mælast heldur ekki endilega með spilun á streymisveitum í samræmi við árangur.

Annað er að margar tónlistarstefnur teljast jaðarstefnur en eiga sér engu að síður marga fylgjendur. Það eru til dæmis ekki margar þungarokkssveitir að mælast með mikla spilun hjá streymisveitunum en við eigum margar góðar slíkar sveitir. Sjálfur fylgist ég spenntur með einni slíkri sveit sem heitir Múr en henni hefur gengið ákaflega vel. Ég hef trú á að hún muni ná langt.

Svo er önnur sveit sem mig langar að nefna sem ég hef mikla trú á um þessar mundir sem er hljómsveitin Inspector Spacetime. Það má segja að hún sé partísveit en hún hefur verið að ná flottum árangri og verið bókuð á tónleikahátíðir víða.“

Vekur athygli erlendis

Leifur segir vinsældir Gabríels um heim allan hafa farið furðu hljótt á Íslandi en almennt átti Íslendingar sig ekki á því hvílíkum árangri íslenskir tónlistarmenn hafi náð á alþjóðavettvangi. Þá veki þessi árangur mikla athygli erlendis en hann sé langt umfram það sem búast mætti við af svo fámennri þjóð.

Íslensk tónlist var farin að njóta vinsælda um heim allan löngu fyrir tíma streymisveitna og segir Leifur aðspurður að tónlistarmenn á Íslandi njóti þess auðvitað að fyrri kynslóðir hafi rutt brautina og vakið athygli á íslenskri tónlist. Þó sé misjafnt hversu mikið erlendir hlustendur tengi íslenska tónlistarmenn við Ísland. Til dæmis tengi Bandaríkjamenn sem heyra tónlist Of Monsters and Men í útvarpi hana ekki endilega alltaf við Ísland.

Velgengni íslenskra tónlistarmanna erlendis skili margháttuðum ávinningi. „Þar mætti nefna kynningu á Íslandi sem áfangastað sem skilar sér vitanlega margfalt til baka inn í hagkerfið, til ferðaþjónustunnar og annarrar verslunar og þjónustu. Það hefur sýnt sig að hver króna sem varið er til stuðnings við skapandi greinar, til dæmis í formi endurgreiðslna á framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi við hljóðritun eða framleiðslu á kvikmyndum, skilar sér 6,8 sinnum til baka inn í hagkerfið. Þar er því um ákaflega ábatasama fjárfestingu að ræða,“ segir Leifur að lokum.

Loks er vakin athygli á frétt um Gabríel á mbl.is, Heldur til Hollywood, en þar er upptaka af tónleikum hans á heimssýningunni í Osaka 29. maí sl.

Höf.: Baldur Arnarson