Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
„Við búum við það hér á þingi núna að minnihlutinn er búinn að taka lýðræðið í gíslingu. Hann bara virðir ekki lýðræðið.“
Þetta sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í gær undir liðnum fundarstjórn forseta.
Tilefni þess að hún lét þessi orð falla er málþóf stjórnarandstöðunnar um veiðigjaldafrumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Ásthildur er þó ekki eini stjórnarliðinn sem talar um að lýðræðið eigi undir högg að sækja út af málþófi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Miðflokksins.
Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar sagði minnihlutann standa „í vegi fyrir framgangi lýðræðisins í landinu“.
Sigurjón Þórðarson flokksbróðir Ásthildar sagði stjórnarandstöðuna „ástunda lýðræðislegt ofbeldi“ og Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar sagði við mbl.is í síðustu viku að sjálft lýðræðið væri undir.
„Stjórnarmeirihlutinn er í þeirri stöðu að það er svolítið erfitt að vera í miklum samningaviðræðum þegar manni finnst í raun og veru að lýðræðið sjálft sé undir, að mál sé afgreitt með atkvæðagreiðslum, með lýðræðislegum hætti í þingsal, þegar það er ágreiningur um það,“ sagði hann á miðvikudaginn í síðustu viku.
Forseta Alþingis misboðið
En þetta eru ekki einu gífuryrðin sem hafa verið látin falla á þinginu. Grétar Már Jónsson, varaþingmaður Flokks fólksins, sagði stjórnarandstöðuna eins og rakka í bandi útvegsmanna.
„Ég hvet fólk til að hætta að hlusta á einhliða áróður LÍÚ-klíkunnar [Landssamband íslenskra útvegsmanna] og fara eftir þeim eins og hundur í bandi og gelta þegar þeim er sigað,“ sagði hann í gær.
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur svo ítrekað sagt ríkisstjórnina hafa brotið lög um opinber fjármál með framlagningu fjármálaáætlunar. Er það vegna þess að samkvæmt lögum um opinber fjármál á að leggja fram fjármálastefnu eins fljótt og auðið er. Lögin gera ráð fyrir að hún verði samþykkt og á grunni hennar unnin fjármálaáætlun. Á grunni fjármálaáætlunar verði fjárlög unnin. Aftur á móti var fjármálastefna ekki samþykkt áður en fjármálaáætlun kom til síðari umræðu á þinginu.
Þórunn Sveinbjarnardóttir sá sig knúna til að bregðast við tvennum fyrrnefndum ummælum í lok umræðna í gær um fundarstjórn forseta.
„Forseti vill að það komi fram hér, að lokinni þessari löngu umræðu um fundarstjórn forseta, að mér þykir mjög miður þegar þung orð falla í þingsal. Á það bæði við um ásakanir um lögbrot og þegar þingmönnum er líkt við rakka í bandi. Ég vona að það verði í fyrsta og síðasta sinn sem þessi forseti þarf að hlusta á slíka umræðu hér í þingsalnum,“ sagði Þórunn.
Þyngri orð en venjulega
Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir í samtali við Morgunblaðið að ásakanir um að stjórnarandstaðan sé á móti lýðræðinu séu fráleitar.
„Það auðvitað blasir við að lýðræðið er mun flóknara og vandaðra fyrirbæri en svo að einfaldur meirihluti ráði hverju sinni, enda er þá augljóst að minnihlutinn hverju sinni gæti þá allt eins verið heima hjá sér ef það væri raunin,“ segir Hildur.
Hún segir stjórnarandstöðuna bera virðingu fyrir þingræðinu en segir þingsköp krefjast þess að á Alþingi eigi sér stað samtal.
„Við að sjálfsögðu berum virðingu fyrir því að meirihlutinn er hér með meirihlutavald en meirihlutinn verður líka að bera virðingu fyrir því að stjórnarandstaðan hefur hér ákveðið hlutverk. Sérstaklega í þeim málum sem blasir við að munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar og þarf hreinlega að vinna betur.“
Finnst þér orðræðan hafa verið hvassari núna en venjulega?
„Já, að mínu viti hafa stjórnarliðar hér tekið sér stærri orð í munn en við eigum almennt að venjast hér á þingi. Það er svona meiri hefð fyrir því að stjórnarandstaðan noti stærri orð en stjórnarliðar. Að mínu viti hafa þeir notað hér stærri orð en við höfum séð undanfarin ár,“ svarar Hildur.
Hún segir að langar umræður um frumvörp séu ekki nýlunda, en á undanförnum árum hafi oft verið samið um mál eða þau tekin af dagskrá.