Gilsfjörður Garpsdalur í Reykhólahreppi er við fjörðinn norðanverðan.
Gilsfjörður Garpsdalur í Reykhólahreppi er við fjörðinn norðanverðan. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vill að virkjunarkosturinn Garpsdalur í Reykhólahreppi verði færður úr biðflokki rammaáætlunar í orkunýtingarflokk. Hefur tillaga þessa efnis verið birt á samráðsgátt stjórnvalda, en með henni er lögð til…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vill að virkjunarkosturinn Garpsdalur í Reykhólahreppi verði færður úr biðflokki rammaáætlunar í orkunýtingarflokk. Hefur tillaga þessa efnis verið birt á samráðsgátt stjórnvalda, en með henni er lögð til framangreind breyting á tillögu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar þar sem lagt hafði verið til að allir tíu vindorkukostirnir sem eru í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins þar sem segir enn fremur að þetta sé í fyrsta skipti sem ráðherra leggi til að slík breyting verði gerð á tillögu verkefnisstjórnar, þ.e. að virkjunarkostur verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk.

Fram kemur að ráðherra málaflokksins, Jóhann Páll Jóhannsson, rökstyðji tillögu sína á þann veg að vindorkukosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsagnir frá faghópum rammaáætlunar en aðrir þeir virkjunarkostir sem til umfjöllunar eru, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag.

Meiri sátt virðist ríkja um virkjunarkostinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti. Að mati ráðherrans eigi þeir virkjunarkostir að ganga fyrir sem séu í senn hagkvæmir og feli í sér minnstu umhverfisáhrifin.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson