Dimma Sænska leikkonan Lena Olin í hlutverki sínu í þáttunum.
Dimma Sænska leikkonan Lena Olin í hlutverki sínu í þáttunum. — Ljósmynd/Lilja Jóns
Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hérlendis nema tæpum 3,3 milljörðum króna það sem af er þessu ári. Nýverið gekk Kvikmyndamiðstöð Íslands frá úthlutun upp á rúma 1,7 milljarða króna. Stærsta úthlutunin er vegna sjónvarpsþáttanna Dimmu sem gerðir eru eftir bókum Ragnars Jónassonar

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hérlendis nema tæpum 3,3 milljörðum króna það sem af er þessu ári. Nýverið gekk Kvikmyndamiðstöð Íslands frá úthlutun upp á rúma 1,7 milljarða króna. Stærsta úthlutunin er vegna sjónvarpsþáttanna Dimmu sem gerðir eru eftir bókum Ragnars Jónassonar. Alls námu endurgreiðslur vegna þáttanna 555 milljónum króna í þremur greiðslum.

Næsthæsta endurgreiðslan í nýjustu úthlutuninni var vegna sjónvarpsþáttanna Reykjavík 112 sem sýndir voru í Sjónvarpi Símans, 215 milljónir króna. Þá námu endurgreiðslur vegna sjónvarpsþáttanna Hildar 203 milljónum króna. Þættirnir eru gerðir eftir vinsælum bókum finnska rithöfundarins Satu Rämö og framleiddir af Sagafilm og Take Two Studios fyrir Sjónvarp Símans og streymisveituna Ruutu í Finnlandi.

Framleiðendur sjónvarpsþáttanna Vigdísar um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, fengu 168 milljónir í endurgreiðslu og kvikmyndarinnar Eldanna 106 milljónir króna. Sjónvarpsþættirnir Ormhildur the Brave 2 fengu 115 milljónir króna í endurgreiðslu. Reykjavík Fusion, sem sýndir verða í Sjónvarpi Símans í haust, fá nú 43 milljónir sem bætast við 201 milljón sem áður hafði verið greidd út.

Allt þetta efni sem hér hefur verið nefnt fær 35% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar en þeim verkefnum sem uppfylla skilyrði þess efnis hefur fjölgað hratt síðasta árið.

Eftirvinnsla við þáttaröðina Zero Day hjá RVX Productions skilar 80 milljónum í endurgreiðslu og tökur fyrir aðra þáttaröð The Last of Us skila 25 milljónum króna.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon