Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Mynd er nú að komast á uppbyggingu í Reykjadal inn af Hveragerði. Þegar ekið er um Kamba sjást miklar framkvæmdir á svæðinu, þar sem nú er verið að reisa byggingar Reykjabaðanna sem áformað er að opna snemma á næsta ári. Þar verða laugar og böð á alls um 1.000 fermetrum auk aðstöðu fyrir tengda starfsemi.
„Í þessu verkefni leggjum við mikla áherslu á gott samspil mannvirkja við stórbrotna náttúruna á Árhólmasvæðinu í Reykjadal,“ segir Brynjólfur Baldursson stjórnarformaður Reykjabaðanna ehf. Þrjú félög fjárfesta koma að þessu verkefni; Hveraberg, Dionysus og Kynnisferðir. Hugsunin með þátttöku Kynnisferða er meðal annars að byggja upp áhugaverðan viðkomustað á Gullna hringnum, hinni vinsælu ferðamannaleið úr Reykjavík þar sem eru Þingvellir, Gullfoss, Geysir og fleiri staðir.
Áætlaður kostnaður við byggingu Reykjabaðanna er áætlaður um 2,5 milljarðar króna. Í þeirri tölu er þá baðstaðurinn og sú þjónustu- og veitingaaðstaða sem fylgir. Áformað er svo, af hálfu þeirra sem að verkefni þessu standa, að byggja meira upp á þessum slóðum í náinni framtíð; það er hótel og veitingastaði með fjölbreyttum möguleikum. Í stóra samhenginu eru Reykjaböðin þá aðeins fyrsti áfanginn. Raunar er margvísleg afþreying í boði á þessum slóðum, svo sem sviflínan úr Kömbum niður í dal. Einnig fara margir af þessum slóðum gangandi inn á fjall, þar er heitur lækur sem mörgum finnst gaman að baða sig í og busla.
Þess má geta að Hveraberg og Dionysus standa einnig að Gróðurhúsinu í Hveragerði, stað í hjarta bæjarins þar sem er mathöll og margvísleg ferðaþjónusta.
„Stefnan í atvinnumálum er sú að hér sé byggð upp ferðaþjónusta sem fellur að umhverfi og staðháttum,“ segir Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðis. „Hér eru mikil tækifæri til uppbyggingar með öflugri ferðaþjónustu sem fellur vel að stefnu og framtíðarsýn bæjarins.“