Iðuveiðar Hið umdeilda veiðisvæði við Iðu. Leigutaki Stóru-Laxár hefur verið kærður fyrir veiðiþjófnað á svæðinu, en atgangur var þar um helgina.
Iðuveiðar Hið umdeilda veiðisvæði við Iðu. Leigutaki Stóru-Laxár hefur verið kærður fyrir veiðiþjófnað á svæðinu, en atgangur var þar um helgina. — Morgunblaðið/oej
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýgenginn úrskurður svokallaðrar ósamatsnefndar um hvar ós Stóru-Laxár sé gagnvart Hvítá í Árnessýslu hefur engin áhrif á veiðiréttindi þeirra sem keypt hafa veiðileyfi fyrir landi Iðu. Úrskurðurinn fjalli ekkert um hver hafi rétt til veiða á…

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Nýgenginn úrskurður svokallaðrar ósamatsnefndar um hvar ós Stóru-Laxár sé gagnvart Hvítá í Árnessýslu hefur engin áhrif á veiðiréttindi þeirra sem keypt hafa veiðileyfi fyrir landi Iðu. Úrskurðurinn fjalli ekkert um hver hafi rétt til veiða á svæðinu, aðeins um hvar ósamatsnefndin telji að ós Stóru-Laxár sé. Þetta segir Guðmundur Ágústsson, lögmaður eigenda Iðujarðanna, í samtali við Morgunblaðið. Reglan sé enda sú að hver jörð hafi veiðirétt fyrir sínu landi, en úrskurðurinn taki einungis til þess hvar ós Stóru-Laxár sé, en ekki til veiðiréttinda.

Aukinheldur er téður ós í landi Iðu, en land jarðarinnar nær nokkuð upp með Stóru-Laxá, að landamerkjum við Eiríksbakka, sem og alllangan spöl niður Hvítá, niður með Þengilseyri.

Uppnám á Iðubökkum

Iðuveiðarnar komust í nokkurt uppnám um sl. helgi eftir að úrskurður nefndarinnar gekk. Úrskurðurinn er endanlegur á stjórnsýslustigi, en honum má eigi að síður skjóta til dómstóla. Býst Guðmundur fastlega við að svo verði gert fljótlega eftir að Héraðsdómur Suðurlands kemur saman á ný eftir sumarleyfi og þess krafist að úrskurðinum verði hnekkt.

Úrskurðurinn gekk sl. föstudag og er niðurstaðan í meginatriðum sú að ós Stóru-Laxár er ákvarðaður alllangt fyrir neðan þann stað þar sem Stóra-Laxá fellur í Hvítá og er meginhluti veiðisvæðisins við Iðu innan þeirra marka.

Guðmundur bendir á að hingað til hafi ós Stóru-Laxár verið skilgreindur þar sem Sigurjón Rist, forstöðumaður Vatnamælinga Orkustofnunar og frumherji í íslenskum vatnamælingum, ákvarðaði ósinn þar sem Stóra-Laxá rennur út í Hvítá og veiðimörk 300 metrum þar fyrir neðan. Aldrei hafi þótt ástæða til að breyta því fyrr en nú.

„Það er tvennt sem er grundvallaratriði í lögum um lax- og silungsveiði. Fyrst er það að hver jarðeigandi hefur rétt til veiða fyrir sínu landi. Síðan, ef stofnað er veiðifélag eða deild um ákveðið vatnasvæði, má krefjast þess að aðili sem á veiðirétt fyrir sínu landi og er innan marka félagssvæðisins verði aðili að félaginu. En til þess að svo geti orðið þarf málið fyrst að fara í ákveðið ferli. Fá þarf staðfestingu frá veiðifélaginu, í þessu tilviki Veiðifélagi Árnesinga, og einnig frá Fiskistofu. Það hefur ekki verið gert,“ segir Guðmundur og bendir á að deild Stóru-Laxár innan veiðifélagsins þurfi að fjalla um það á aðalfundi hvort þess verði óskað að viðkomandi aðili, Iða í þessu tilviki, verði tekinn inn í félagið. Fari svo þurfi aðilar að ganga til samninga sem og gera nýtt arðskrármat.

„Á meðan þetta hefur ekki verið gert er réttarstaðan óbreytt,“ segir Guðmundur, enda ekki verkefni matsnefndarinnar að ákveða hver eigi rétt til veiða.

Hann segir að leigutaki Stóru-Laxár hafi mætt á Iðusvæðið um helgina með allt að fjórar stangir og veitt á svæðinu, sem sé klár veiðiþjófnaður. Lögreglan hafi verið kölluð til og ætlaður veiðiþjófnaður kærður til Fiskistofu. Jafnframt hafi Veiðifélagi Árnesinga verið gert viðvart. Lögreglan hafi hingað til ekki viljað skipta sér af málinu.

Guðmundur segir að úrskurður um ós Stóru-Laxár hafi ekkert með veiðiréttinn að gera. Grundvallarreglan sé að menn eigi rétt til veiða fyrir sínu landi eins og verið hafi á Iðu um alla tíð. Það sé skýrt og úrskurður matsnefndarinnar breyti engu um það.

„Að halda því fram að úrskurðurinn hafi gefið Stóru-Laxá heimild til að stækka veiðisvæði sitt án þess að ræða við eigendur Iðujarðarinnar er út í hött. Samkvæmt þeim leigusamningi sem Bergsnös gerði um veiðirétt Stóru-Laxár nær hann frá Eiríksbakka og upp úr. Í leigusamningnum er ekkert fjallað um ósinn eða Iðusvæðið,“ segir Guðmundur, enda hafði Iða skuldbundið sig til að heimila ekki veiðar fyrir sínu landi sem liggur með Stóru-Laxá.

„Bergsnös hefur enga heimild skv. sínum samningi til að veiða á Iðusvæðinu og stjórn veiðideildar Stóru-Laxár hefur enga heimild til að heimila leigutakanum veiðar fyrir landi Iðu. Það er ekki hægt að veita réttindi á öðrum slóðum en þeim sem viðkomandi er með umboð fyrir,“ segir Guðmundur.

Forn meginregla

„Það er forn meginregla íslensks réttar að hver maður eigi einn veiði fyrir sínu landi, þ.e. að saman fari eignarhald á landi og veiðiréttur í vatni eða á fyrir því landi. Af hálfu matsnefndar er áréttað að afmörkun á ósi Stóru-Laxár gagnvart Hvítá breytir í engu þeirri staðreynd að jarðamörk ráða hver eigi veiðirétt fyrir bakka einstakra jarða. Eftir því sem matsnefnd kemst næst er ekki ágreiningur um landamerki á svæðinu.“

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson