Gunnar Birgisson
Gunnar Birgisson
Fjárlagafrumvarpið sem Donald Trump vill að þing BNA samþykki mun enn auka gífurlegar skuldir bandaríska ríkisins.

Gunnar Birgisson

Þingmenn Bandaríkjanna hafa undanfarið glímt við skatta- og útgjaldafrumvarp sem Donald Trump vill að þingið samþykki og sem hann kallar stóra fallega frumvarpið. Demókratar greiða að sjálfsögðu atkvæði gegn frumvarpinu. En jafnvel sumir Repúblikanar eru tregir til að samþykkja þetta, því að tillögur Trumps munu auka himinháar skuldir bandaríska ríkisins.
Það vandamál fær stöðuga athygli en engar lausnir eru í sjónmáli, og það styttist í að það fari að valda verulegum vandamálum.

Skuldir bandaríska ríkisins hafa stóraukist síðustu áratugina og nema núna um 36.000.000.000.000 dollurum eða 4.500.000.000.000.000 ISK, en skuldin er næstum því þrefalt hærri en hún var fyrir 15 árum. Þessi upphæð samsvarar um 102.000 dölum (12 milljónum ISK) á hvern ríkisborgara BNA. Skuldirnar hafa aukist jafnt og þétt síðustu áratugina því að bandaríska ríkið eyðir á hverju ári miklu meira fé en það fær inn gegnum skatta og tolla, en árið 2001 var það síðasta án halla í fjárlögum. T.d. var munurinn á tekjum ríkisins og útgjöldum þess árið 2023 um 1.700.000.000.000 dalir þar sem tekjur voru 4.470.000.000.000 dalir en útgjöld um 6.160.000.000.000 dalir. Á þeim árum þegar ríkisútgjöld jukust mikið vegna aðgerða ríkisins, eins og eftir fjárhagskreppuna 2008 eða út af covid 2020, þá hækkuðu ríkisskuldirnar enn meira.

Til að borga mismuninn á útgjöldum og tekjum þarf ríkið að taka lán með því að selja ríkisskuldabréf. Vegna þess að skuldabagginn er sífellt að stækka og vextir hafa nýlega verið háir þá borgar ríkið núna árlega yfir 1.000.000.000.000 dali í vaxtagreiðslur af ríkisskuldum, eða vel yfir 10% af heildarútgjöldum ríkisins. Núorðið kosta þessar greiðslur ríkið meira en það eyðir í hernaðarmál á hverju ári og þess má geta að BNA eyðir svipuðu á hverju ári í hernaðarmál og næstu tíu þjóðir samtals.

Flestir eru sammála um að þetta ástand sé ekki sjálfbært, en enginn vill takast á við erfiðar lausnir, því að það myndi þýða að kjósendur þyrftu annaðhvort að borga hærri skatta eða fá minni bætur eða þjónustu. Það vakti athygli í vetur þegar Elon Musk fór fyrir hönd Trumps í ýmis ráðuneyti til að fækka ríkisstarfsmönnum og skrúfa fyrir ákveðnar áætlanir ríkisins. Sögðu þá Repúblikanar að þetta væri nauðsynlegt m.a. til að spara pening, en í raun höfðu þessar aðgerðir sáralítil áhrif á útgjöld ríkisins og voru frekar gerðar til að minnka starfsemi ríkisins á ýmsum sviðum sem Repúblikanar kunna illa við, t.d. framlög til þróunarmála í öðrum löndum og til umhverfisverndarmála í BNA.

En málið snýst í raun ekki kringum Repúblikana eða Demókrata, því að báðir flokkar hafa í gegnum árin ekki reynt að gera nokkuð sem myndi rétta úr þessum skuldahalla. Að skera niður útgjöld ríkisins er tvímælalaust erfitt, því að um 70% af útgjöldum ríkisins fara til hernaðarmála og ýmissa félagslegra áætlana þar sem eru lögbundin útgjöld, sérstaklega Social Security (eftirlaun og örorkubætur), Medicare (sjúkratryggingar fyrir aldraða), Medicaid (sjúkratryggingar fyrir fátæka) og læknisþjónusta og bætur fyrir fyrrverandi hermenn.

Mikil mótstaða er við breytingum á þessari félagsaðstoð, sérstaklega frá hagsmunagæsluhópum aldraðra. Umsvif BNA eru slík að hernaðarkostnaður virðist sífellt vera að aukast.

Afgangurinn af útgjöldum ríkisins fer svo í að borga vaxtagreiðslur af ríkisskuldum og öll önnur útgjöld, t.d. kostnað dómskerfisins, utanríkisþjónustunnar, fjármálaeftirlits, alríkislögreglunnar, samgönguinnviða, o.s.frv. Ekki er ljóst hvar er hægt að skera niður að ráði og skattahækkanir njóta ekki mikilla vinsælda. Demókratar lofa þó alltaf að hækka skatta á þá sem teljast ríkir, og vísa þá oft til manna eins og Jeffs Bezos og Marks Zuckerberg, en þó að eitthvað verði um slíkt þá myndi það ekki hafa mikil áhrif á fjárlagahallann.

Kostnaður við eftirlaun, örorkubætur og sjúkratryggingar fyrir aldraða hefur aukist talsvert og talað er um að innan áratugar muni ríkið ekki geta borgað út samkvæmt lögum. Fyrr eða síðar verður því annaðhvort að hækka skatta til að ekki verið skorið niður eða þá minnka greiðslur. En hvorugur flokkurinn þorir að takast á við slíkar breytingar og stendur frekar í því að hræða kjósendur um ill áform hins flokksins.

Ekki þykir heldur efnilegt að hætta eða minnka greiðslur af skuld ríkisins. Tveir þriðju skuldabréfanna eru í eign Bandaríkjamanna, sem ekki myndu sætta sig við skertan hlut. Þriðjungur er í eign erlendra aðila, þ. á m. kínverska ríkisins og japanska ríkisins, og hafa erlendir aðilar oft keypt þessi skuldabréf vegna þess að það þótti traustasta fjárfesting sem til væri. BNA er þannig háð erlendum fjárfestum og ef ríkið tæki upp á því að vanrækja greiðslur myndi það missa traust og eiga í erfiðleikum með sölu á skuldabréfum í framtíðinni.

Enn er deilt á þinginu um tillögur Trumps, en talið er að það muni auka skuldir ríkisins um þrjár trilljónir dala, m.a. með því að framlengja skattalækkanir sem Trump kom í gegnum þingið á sínu fyrsta kjörtímabili og afnema skatta á tekjum af þjórfé og yfirvinnu. Eini alvarlegi niðurskurðurinn sem vegur á móti er í útgjöldum til heilbrigðismála fyrir fátæka og sala á landsvæðum í almenningseign, sem hvort tveggja er umdeilt. En stuðningsmenn Trumps segja að skattalækkanirnar og fleira í frumvarpinu muni svo örva efnahaginn að skuldabagginn muni í raun minnka. Flestir hagfræðingar efast um þá niðurstöðu.

Það er kannski ofsagt að bandaríska ríkið sé á leið í gjaldþrot, en margir eru farnir að vara við hættunni af skuldavandamálinu, þ. á m. Ray Dalio, stofnandi stærsta vogunarsjóðs í heimi, sem hvetur til aðgerða sem fyrst. En báðir flokkarnir virðast trúa því að einhver töfralausn muni birtast í framtíðinni. Þangað til mun ekkert aðhald vera á dagskránni, ríkið mun áfram taka meiri lán og flokkarnir munu keppast um að kenna hvor öðrum um allt sem illa fer.

Höfundur hefur starfað sem lögmaður í Washington DC í tæplega 30 ár.

Höf.: Gunnar Birgisson