Þingeyri Elísa Björk ásamt syni sínum Arnari Þóri. Hún hefur í tvö ár rekið verslunina á Þingeyri í Dýrafirði.
Þingeyri Elísa Björk ásamt syni sínum Arnari Þóri. Hún hefur í tvö ár rekið verslunina á Þingeyri í Dýrafirði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hammonu á Þingeyri verður að öllu óbreyttu lokað um næstu mánaðamót. Þetta segir Elísa Björk Jónsdóttir, sem rekur einu kjörbúð og sjoppu þorpsins, við Morgunblaðið. Hammona selur matvæli á borð við kjöt, grænmeti og mjólkurvörur og er þar að auki…

Flóki Larsen

floki@mbl.is

Hammonu á Þingeyri verður að öllu óbreyttu lokað um næstu mánaðamót. Þetta segir Elísa Björk Jónsdóttir, sem rekur einu kjörbúð og sjoppu þorpsins, við Morgunblaðið. Hammona selur matvæli á borð við kjöt, grænmeti og mjólkurvörur og er þar að auki matsölustaður sem selur hamborgara, kótilettur, ís, pylsur o.fl. Þar fæst einnig eitt og annað nytsamlegt sem ekki er matvæli.

„Ég er að hætta í lok júlí,“ segir Elísa Björk. Hún segir reksturinn ganga nokkuð vel á sumrin en ekki sé hægt að segja það um viðskipti yfir vetrartímann. „Þá er töluvert rólegra, þetta er dálítið hark,“ segir Elísa. Hún segist standa vaktina ein stærstan hluta ársins og að það sé erfiðara en að segja það.

Ætla að búa áfram á Þingeyri

Spurð um ástæðu lokunarinnar segir Elísa Björk að hún muni taka við nýju starfi sem henni bauðst í vegavinnu. Þar verður hlutverk Elísu Bjarkar að elda mat fyrir samstarfsfélaga sína. Elísa Björk segir að hún fái hærri laun en hún hafi getað greitt sér í sínum eigin rekstri, og að auki fái hún meira frí í nýja starfinu. Elísa Björk, sem er með stóra fjölskyldu og lítil börn, segir það vera mikla bindingu að halda úti eigin verslun.

Hún segist þó ekki vera á förum frá Þingeyri. „Við erum nýbúin að kaupa okkur hús hérna. Við erum ekkert á leiðinni í burtu heldur ætlum við að búa áfram hér,“ segir hún.

Bjartsýn á framhaldið

Elísa Björk segir að enginn hafi gert sig líklegan til að verða nýr rekstraraðili búðarinnar. Hún segist þó vonast til að einhver taki við, mikið högg sé fyrir bæjarfélagið að hafa ekki starfandi verslun og matsölustað. Hammona er eini matsölustaður þorpsins sem er opinn að kvöldi til yfir vetrartímann en hótel staðarins selur mat á kvöldin yfir sumartímann.

Lokun verslunarinnar eru aðrar þungu fréttirnar fyrir byggðarlagið á stuttum tíma. Nýlega var tilkynnt um áform fiskeldisfyrirtækisins Artic Fish um að flytja níu störf, eða þriðjung þeirra starfa sem heyra undir starfsemi fóðurstöðvar þeirra á Þingeyri, yfir á Ísafjörð. Óvíst er hversu margir Þingeyringar haldi áfram störfum sínum en Artic fish hefur sagt að þeir muni ganga að þeim vísum á Ísafirði, fyrirtækið muni greiða fyrir samgöngur þeirra frá Þingeyri yfir á Ísafjörð. Um 40 mínútna akstur er til Ísafjarðar. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur gagnrýnt áformin harðlega og fór vestur til að ræða við forstjóra fyrirtækisins um málið.

Höf.: Flóki Larsen