Rusl Deilt er um hvort Sorpa eigi að fá aukagreiðslur fyrir flokkun.
Rusl Deilt er um hvort Sorpa eigi að fá aukagreiðslur fyrir flokkun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það væri óeðlilegt að fara í afturvirka greiðslu vegna annarrar meðhöndlunar en við höfum gert kröfu um,“ segir Kristófer Már Maronsson, stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs. Stjórn Úrvinnslusjóðs hefur hafnað kröfu Sorpu um hærri greiðslur…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það væri óeðlilegt að fara í afturvirka greiðslu vegna annarrar meðhöndlunar en við höfum gert kröfu um,“ segir Kristófer Már Maronsson, stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs.

Stjórn Úrvinnslusjóðs hefur hafnað kröfu Sorpu um hærri greiðslur vegna aukins kostnaðar við handflokkun drykkjarumbúða frá öðrum blönduðum pappír. Alls fór Sorpa fram á að fá rúmar 67 milljónir króna fyrir árið 2024 en jafnframt var farið fram á að Úrvinnslusjóður endurskoðaði ákvörðun sína um að hafna sams konar beiðni fyrir árið 2023. Hljóðaði sú beiðni upp á tæpar 15 milljónir króna en hún náði aðeins til hluta ársins.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu má rekja aukinn kostnað Sorpu til þess að 1. júlí 2023 hóf Sorpa að senda blandaðan pappír til Svíþjóðar þar sem drykkjarumbúðir eru flokkaðar sérstaklega úr með handvirkum hætti. Þessi handflokkun nær einnig til drykkjarumbúða, dagblaða og tímarita, bylgjupappa og rusls. Þetta er gert þess að draga úr kostnaði á síðari stigum í virðiskeðjunni.

Kristófer segir í samtali við Morgunblaðið að Sorpa hafi haldið því fram að neitun Úrvinnslusjóðs á beiðninni væri stjórnvaldsákvörðun. Fyrir hafi legið innanhússmat um að svo væri ekki og nú við ítrekun beiðninnar hafi verið leitað til Magma lögmanna. Niðurstaða þeirra hafi staðfest að ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða.

Hann segir að í starfsemi sjóðsins séu gerðir samningar við þjónustuaðila um ákveðið endurgjald fyrir vissa vöruflokka. Í þeim samningum komi fram hvað sé greitt og hverjar skyldur þjónustuaðila eru. Beiðni Sorpu snúist um að fá greitt umfram fyrirliggjandi samning.

„Við erum bara að útdeila skattfé. Ef við teljum rétt að drykkjarumbúðir úr pappa eigi að fara í annan farveg þá þurfum við að breyta samningnum,“ segir Kristófer.

Hann segir jafnframt að nú sé verið að vinna úttekt á fyrirkomulagi flokkunar umbúða. Þegar úttektin liggur fyrir verði lagt mat á hvort breyta eigi fyrirkomulagi hér á landi þannig að lagt verði hærra úrvinnslugjald á vörur sem er dýrara að endurvinna og endurnýta. „Þetta er umræða sem mun eiga sér stað eftir að skýrslan liggur fyrir.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon