Veiðigjöld Frumvarpið um veiðigjöld var rætt á Alþingi í gær.
Veiðigjöld Frumvarpið um veiðigjöld var rætt á Alþingi í gær. — Morgunblaðið/Karítas
Jens Garðar Helgason, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ótal umsagnir hafa borist á seinustu dögum um frumvarp um hækkun veiðigjalda og ítrekar að engin greining á áhrifum frumvarpsins hafi verið unnin

Jens Garðar Helgason, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ótal umsagnir hafa borist á seinustu dögum um frumvarp um hækkun veiðigjalda og ítrekar að engin greining á áhrifum frumvarpsins hafi verið unnin.

Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga gagnrýndi frumvarpið í yfirlýsingu á mánudag og telur hún að vinna þurfi frumvarpið betur á grundvelli nýrra gagna. Þá lýsir hún áhyggjum af aukinni samþjöppun í sjávarútvegi.

Eiríkur Björn Björgvinsson, þingmaður Viðreisnar og 1. varaformaður atvinnuveganefndar, segir lítið nýtt koma fram í yfirlýsingu Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um veiðigjaldafrumvarpið. Hann segir að það verði að koma í ljós hvort frumvarpið muni valda frekari samþjöppun. Fyrirtækin á þessu sviði taki sínar sjálfstæðu ákvarðanir og hann ætli ekki að taka þær ákvarðanir fyrir þau.

Jens Garðar segir áhrif frumvarpsins örugglega gera þeim sem eru með litlar og meðalstórar útgerðir erfitt fyrir að reka fyrirtækin í núverandi mynd og að menn muni þurfa að leita til sameiningar. „Ég get svo sem ekkert sagt nákvæmlega til um það á þessari stundu en þessum varnaðarorðum hefur verið haldið uppi við okkur.“

Hann segir nýjar tölur frá Deloitte sýna að þessi gjöld verði til þess að 75-90% af rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna fari í opinber gjöld, þrátt fyrir hækkun á frítekjumarki.

„Þrátt fyrir hækkunina á frítekjumarki og allt það sem stjórnarliðarnir hafa verið að tala um, þá bara grípur frumvarpið ekki litlu og meðalstóru fyrirtækin.“