Flóki Larsen
floki@mbl.is
Skemmti- og veitingastaðurinn Vagninn er einn af máttarstólpum skemmtanalífsins á Vestfjörðum. Þar er þétt dagskrá tónleika og uppákoma á sumrin.
Mikil uppsveifla hefur verið á Flateyri undanfarin tíu ár. Þar iðar listalíf af ýmsu tagi. Morgunblaðið tók hús á Geir Magnússyni og Ragnheiði Ólafsdóttur sem reka staðinn ásamt Sindra Páli Kjartanssyni. Þau hafa bætt kannabisræktun við starfsemi hússins.
Parið keypti hús á Flateyri árið 2015 og hefur verið að gera upp hús sitt síðan. Þau búa þar hluta úr ári. Um aðdraganda þeirrar ákvörðunar að kaupa hús á Flateyri segir Ragnheiður að Geir hafi orðið hugfanginn af þorpinu þegar hann var við tökur á myndinni París norðursins. Geir tekur undir það og segist í kjölfarið hafa tekið fjölskylduna með í frí á staðinn. Hún hafi sömuleiðis fallið fyrir þorpinu og þá hafi ekki verið aftur snúið.
Mikil uppbygging síðustu ár
„Á þessum tíma var þorpið eins og draugabær. Það var ekkert um að vera. Ekki ljóstíra í glugga. Það er ekki fyrr en rétt fyrir kóvidið sem ferðamennskan byrjar. Þannig að við sjáum þessa uppbyggingu,“ segir Ragnheiður.
Hún segir fasteignaverðið hafa verið með því lægsta á landinu þegar þau keyptu fyrir tíu árum. Það hafi hækkað síðan þá.
Ragnheiður og Geir voru hluti af bylgju fólks fyrir sunnan sem keypti hús á Flateyri þá. Talsvert af því fólki sem hefur látið til sín taka í kvikmyndageiranum, eins og þau og Sindri Páll og Hálfdán Pedersen sem keypti með þeim Vagninn á sínum tíma.
Annar maður sem keypti hús á Flateyri um svipað leyti er Bragi Valdimar Skúlason. Það gerði hann ásamt félagsskapnum Baggalúti og fjölskyldum þeirra. Blaðamaður spurði Braga út í sína reynslu af Flateyri þar sem hann var í sumardvöl.
Bragi segir fjölskyldurnar sjö sem gerðu upp húsið nú keppast um að dvelja í því. Hann ólst sjálfur upp á Vestfjörðum og fleiri í hópnum höfðu tengingar vestur. Því hafi verið ákveðið að splæsa í hús sem var þá í tísku og er enn samkvæmt Braga Valdimar.
Aðspurður hvers vegna Flateyri hafi orðið fyrir valinu segir Bragi að fyrir sig persónulega hafi fjöllin, kyrrðin og dásamlegt fólk heillað sig.
„Það er mikill jarðvegur fyrir kúltúr og því að hafa gaman. Það er mikið fjör hérna á sumrin svo er náttúrlega rólegra yfir veturinn en þá er dásamlegt að vera hérna í kyrrðinni. Svo er ekkert verra að hafa besta skemmtistað á landinu hérna við hliðina,“ segir Bragi Valdimar.
Styrkir fyrir kannabisræktun
Þau Geir og Ragnheiður hafa, auk viðburðahalds og veitingasölu, nýtt húsnæðið til ræktunar. Í ár og í fyrra hafa þau hlotið styrki til kannabisræktunar, nú síðast á föstudaginn frá Lóu nýsköpunarsjóði, fyrir vökvakældum ljósum og snjallvæðingu ræktunarinnar. Uppbyggingarsjóður Flateyrar hefur styrkt verkefnið í tvígang, 2024 og 2025, til þróunar á ræktunaraðferðum og til tækjakaupa.
Fyrirtæki þeirra, Cannarctica, ræktar þá gerð marijúana sem er lögleg á Íslandi og inniheldur virka efnið CBD. Því er ekki um vímuefni að ræða. Þau flytja fræ sín til landsins í gegnum MAST. „Við pössum að taka ekki inn fræ sem eru yfir 0,2% af THC, sem er vímuefnið. Við erum mjög ströng á því,“ segir Ragnheiður. Hún segir þau hjónin nýlega hafa fjárfest í lítilli vél til að gera olíu úr blómunum, þau séu að prófa sig áfram með smyrsl og aðrar vörur með olíunni. „Það fæðist alltaf eitthvað skrýtið á Flateyri. Það eru fleiri tímar í sólarhringum hérna,“ segir Ragnheiður. Megnið af blómunum segja þau hjónin þó seld í þeim tilgangi að fólk reyki þau, vörurnar sem fáist séu seldar á Vagninum og í Reykjavík. „Við önnum ekki eftirspurn,“ segir Geir um gang mála.
Úrvalslið tónlistarfólks
Fjöldi skemmtana verður á Vagninum í sumar. Svokallað Ógleymaball verður þann 12. júlí og tónleikar með Fræbbblunum eru á dagskrá 18. júlí. Þá munu tónlistarmennirnir Una Torfa, Inspector Spacetime, Herbert Guðmundsson, Spacestation, Daði Freyr og fleiri spila í sumar.
Ari Eldjárn verður með uppistand og Margrét Erla Maack heldur kjallarakabarett.
Geir, Ragnheiður og Bragi Valdimar eru sammála um að gott listalíf þrífist á Flateyri. Bentu þau blaðamanni á listahátíðina ListaVestrið sem hefst 12. júlí og stendur til 20. júlí. Þar munu listaverk af ýmsu tagi fá að njóta sín og listamenn spreyta sig hvarvetna á Flateyri.
Þó nokkrir listamenn hafa búsetu á Flateyri að sögn aðstandenda Vagnsins. Þar á meðal er fólk frá Flateyri en einnig listamenn sem hafa flutt til landsins að utan. Nefndu þau myndlistarkonurnar Helen Kova og Jean Larson í því samhengi.
Lýðskólinn á Flateyri hefur verið liður í eflingu listalífsins í þorpinu en hann er starfræktur á veturna. Skólinn hefur haldið úti kennslu síðan 2018. Geir og Ragnheiður segja nemendur skólans aufúsugesti í Vagninum. Meginþjónustutími staðarins er yfir sumartímann en þau hafa þó haft opið um helgar á veturna þegar nemendur þyrstir í skemmtanalíf. Þá hefur Vagninn einnig haft opið um páska í tengslum við hátíðina Aldrei fór ég suður sem haldin er á Ísafirði.