Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Bandaríkjastjórn hyggst aftur hefja vopnasendingar til Úkraínu, en Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í fyrrakvöld að það væri nauðsynlegt til þess að hjálpa Úkraínumönnum að verja sig gegn árásum Rússa.
Greint var frá því í síðustu viku að Bandaríkjaher hefði stöðvað sendingar á skotfærum og loftvarnaeldflaugum til Úkraínu, og var því haldið fram að það væri vegna þess að herinn þyrfti sjálfur á viðkomandi hergögnum að halda.
Rússar hafa hert mjög á loftárásum sínum á Úkraínu undanfarnar vikur, og sagði Trump að hann væri óánægður með framferði Rússa og Pútíns Rússlandsforseta, en Trump hefur reynt að koma á vopnahléi í Úkraínustríðinu. „Við munum neyðast til þess að senda fleiri vopn, varnarvopn aðallega,“ sagði Trump á sameiginlegum blaðamannafundi sínum með Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið staðfesti síðar um kvöldið að Trump hefði skipað fyrir um vopnasendingar til þess að tryggja að Úkraínumenn gætu varið sig meðan unnið væri að varanlegum friði.
Úkraínsk stjórnvöld sögðust í gær vera þakklát fyrir aðstoðina, en að þau myndu ræða við Bandaríkjamenn um í hverju hún fælist. Rússnesk stjórnvöld brugðust hins vegar ókvæða við, og sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, að vopnasendingar til Úkraínu myndu einungis „framlengja átökin“.
Gengið hratt á birgðirnar
Samkvæmt heimildum bandaríska vefmiðilsins Axios munu Úkraínumenn nú fá sendar tíu Patriot-loftvarnaflaugar í stað þrjátíu, sem þeir áttu að fá upphaflega. Þá vilja bandarísk stjórnvöld að Þjóðverjar og Grikkir sendi Úkraínumönnum Patriot-loftvarnarkerfi til þess að brúa bilið, þar sem ekki er hlaupið að því að framleiða þau.
Breska dagblaðið Guardian hafði eftir heimildarmönnum sínum innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins í gær, að gengið hefði hratt á birgðir Bandaríkjahers af Patriot-eldflaugum, og að herinn hefði nú einungis um einn fjórða af þeim fjölda Patriot-flauga sem áætlanir hersins kölluðu eftir.
Sagði í frétt blaðsins að þessi skortur hefði verið rótin að því að ákveðið var að stöðva vopnasendinguna til Úkraínu í síðustu viku.