Samdráttur Stjórnendur verktakafyrirtækja telja að samdráttur sé fram undan í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði, ef marka má nýja könnun.
Samdráttur Stjórnendur verktakafyrirtækja telja að samdráttur sé fram undan í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði, ef marka má nýja könnun. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íbúðum í byggingu kemur til með að fækka svo um munar á næstu 12 mánuðum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins. Könnunin var lögð fyrir stjórnendur verktakafyrirtækja sem byggja íbúðir á eigin vegum fyrir almennan markað

Sviðsljós

Kjartan Leifur Sigurðsson

kjartanleifur@mbl.is

Íbúðum í byggingu kemur til með að fækka svo um munar á næstu 12 mánuðum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins.

Könnunin var lögð fyrir stjórnendur verktakafyrirtækja sem byggja íbúðir á eigin vegum fyrir almennan markað. Stjórnendur fyrirtækjanna gera ráð fyrir 17% fækkun íbúða í byggingu á næstu 12 mánuðum.

Verktakafyrirtækin sem tóku þátt í könnuninni standa þessa stundina að byggingu 2.262 íbúða, eða sem nemur 37% af heildarfjölda allra íbúða í byggingu á landsvísu. Ef marka má niðurstöður könnunarinnar munu þessi sömu fyrirtæki aðeins standa á bak við byggingu 1.873 íbúða að 12 mánuðum liðnum.

Ef þessi samdráttur er heimfærður á markaðinn í heild sinni má gera ráð fyrir að íbúðum í byggingu á landsvísu fækki úr 6.200 í 5.100 á næstu 12 mánuðum. Þess má geta að íbúðir í byggingu í mars 2023 voru 8.800 talsins.

Samtök iðnaðarins vara við því að þessi samdráttur gæti heft vaxtargetu, aukið verðbólgu og leitt til hærra vaxtastigs.

Sölutími íbúða hefur lengst

Stjórnendurnir gera ráð fyrir að fyrirtæki þeirra selji 960 íbúðir á næstu 12 mánuðum. Áætlað er að 1.531 íbúð verði fullbúin á þessu sama tímabili.

Því er gert ráð fyrir að sala á nýjum íbúðum aukist enda hafa verktakafyrirtækin sem tóku þátt í könnuninni aðeins selt 627 íbúðir á seinustu 12 mánuðum.

Mikill meirihluti stjórnendanna, eða 86%, telur sölutíma íbúða hafa lengst á undanförnum 12 mánuðum.

Stjórnendurnir eru nær allir sammála um að lengri sölutíma íbúða megi rekja til hás vaxtastigs. 80% þeirra telja jafnframt að ströng lántökuskilyrði hafi ýtt undir lengri sölutíma. Um fjórðungur telur nýjar íbúðir ekki henta því sem kaupendur sækist eftir.

Niðurstöður könnunarinnar leiða það bersýnilega í ljós að hár fjármagnskostnaður er mjög stór áhrifaþáttur í þeim samdrætti sem verktakafyrirtæki sjá fyrir sér á næstu 12 mánuðum.

Háir vextir sliga markaðinn og segja 86% stjórnenda sem tóku þátt í könnuninni að háir vextir hafi dregið úr áformum þeirra um íbúðauppbyggingu, en stýrivextir Seðlabankans standa þessa stundina í 7,5% og ólíklegt er að þeir lækki meira nema verðbólga, sem er nú 4,2%, dragist saman, ef marka má yfirlýsingar Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra.

81% stjórnendanna telur aukinheldur að hár fjármögnunarkostnaður komi til með að draga enn frekar úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Lóðaskortur vandamál

Um mitt ár 2023 tók gildi sú breyting að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði var lækkuð úr 60% niður í 35%. Þessi breyting virðist hafa haft neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir verktakafyrirtæki.

76% stjórnenda telja lækkun endurgreiðsluhlutfallsins hafa dregið úr íbúðauppbyggingu.

Meirihluti stjórnendanna, eða 57%, telur einnig að lóðaskortur hafi dregið úr uppbyggingu íbúða hjá verktakafyrirtækjum sínum.

Minnihluti stjórnenda telur hækkandi launakostnað hafa dregið úr uppbyggingu.

Sigurður Hannesson

Ofmat Hagstofunnar

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir niðurstöðurnar draga fram að í hagtölum Hagstofunnar virðist íbúðafjárfesting hafa verið ofmetin.

„Þetta hefur áhrif á ýmsa þætti, eins og til dæmis stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans,“ segir Sigurður um afleiðingar ofmatsins.

Hann segir bæði ríki og sveitarfélög þurfa að grípa inn í til þess að liðka fyrir íbúðauppbyggingu.

„Ríkið þarf að huga að lóðum sem það á sjálft og einnig einfalda regluverk. Sveitarfélög þurfa að gera betur þegar kemur að því að úthluta lóðum og einnig þarf að flýta fyrir ákvörðunum og leyfisveitingum.“

Höf.: Kjartan Leifur Sigurðsson