Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Mikil óánægja er meðal veitingamanna með þjónustu heilbrigðiseftirlits og samskipti við starfsmenn þess. Þetta sýna niðurstöður könnunar Sveit, Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, meðal félaga í samtökunum.
Mikill meirihluti félaga í Sveit svaraði könnuninni og bróðurpartur þeirra er með rekstur í Reykjavík, um 74% þeirra sem svöruðu. Sem kunnugt er hafa margir veitingamenn lýst óánægju vegna seinagangs við leyfisveitingar í Reykjavík og má ætla að mesta óánægjan beinist að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Um 88% svarenda eru sammála þeirri fullyrðingu að almennt séð sinni heilbrigðiseftirlitið mikilvægu starfi. Annað er hins vegar upp á teningnum þegar spurt er hvort veitingamenn séu ánægðir með þjónustu heilbrigðiseftirlits þegar kemur að samskiptum vegna veitingareksturs. Um 63% svarenda eru annaðhvort óánægð eða mjög óánægð. Aðeins 16% svarenda eru annaðhvort ánægð eða mjög ánægð.
Viðmót heilbrigðiseftirlitsins til fyrirtækja á veitingamarkaði fær sömuleiðis falleinkunn. Um 74% eru óánægð en um 10% ánægð. Traust til heilbrigðiseftirlitsins er heldur ekki mikið, 60% svarenda bera lítið eða mjög lítið traust til eftirlitsins en 15% mikið eða mjög mikið traust. Samvinna starfsfólks heilbrigðiseftirlits fær þá ekki háa einkunn.
Framkoma og viðmót starfsmanna í heimsóknum á veitingastaði fær almennt ekki háa einkunn veitingamanna. Um 56% segja viðmótið slæmt eða mjög slæmt, fjórðungur segir viðmótið gott eða mjög gott.
Upplýsingagjöf í tengslum við athugasemdir við úttektir þykir einnig ábótavant, 34% segja hana ófullnægjandi og 20% segja hana óviðunandi. Rúm 32% segja hana fullnægjandi.
Veitingamenn kvarta einnig undan því hversu langan tíma tekur að fá svör við erindum sínum hjá heilbrigðiseftirliti. Um 61% er óánægt eða mjög óánægt með svartíma.
Þegar spurt var um hvað mætti bæta í þjónustu heilbrigðiseftirlits gerði meirihluti veitingamanna athugasemdir við viðmót, samvinnu, samskipti, biðtíma og aðstoð við úrlausnir athugasemda sem eftirlitið gerir.
Borgin þurfi að grípa inn í
„Niðurstöðurnar úr þessari könnun eru engri stofnun til sóma,“ segir Einar Bárðarson framkvæmdastjóri Sveit.
„Það er ekki hægt að lesa annað úr þessu en að starfsmenn geri sér lífið mjög erfitt og veitingamönnum erfiðara. Þeir sinna upplýsingagjöf og leiðbeiningum nánast ekkert. Maður veltir því fyrir sér ef andinn er þannig á vinnustaðnum þá hljóti þetta að vera eitthvert stjórnunarmál. Þannig horfir það við manni utan frá. Ráðamenn í borginni þurfa að skoða þetta, það getur enginn verið stoltur af svona ástandi,“ segir Einar og bætir við að sams konar könnun hafi verið gerð í byrjun árs 2024 og svörin hafi verið á sömu leið. Ekkert hafi því rofað til á einu og hálfu ári.
Einar segir að skýrt hafi komið fram í svörum í könnuninni að veitingamenn beri virðingu fyrir hlutverki eftirlitsins, enginn sé að biðja um að slakað sé á kröfum. Hins vegar þurfi að bæta þjónustu og viðmót.
Vilja ekki rugga bátnum
Hann segir að yfirvöld hér mættu kannski taka sér fyrirkomulagið í öðrum löndum til fyrirmyndar. Þar séu kröfur heilbrigðiseftirlits engu minni en veitingamenn megi hins vegar opna staðinn og svo kemur eftirlitið og tekur hann út. Ef margt er í ólagi er staðnum lokað en ef laga þarf eitthvað smávægilegt þá er farið í ferli þar sem veitingamönnum gefst tækifæri til að laga það.
„Fæstir af þessum rekstaraðilum mega við því að missa úr helgi enda eru þeir enn að vinna sig út úr covid-skaflinum. Liðlegheit og þægilegra viðmót myndu bæta ástandið til muna,“ segir Einar.
„Með því fyrsta sem ég gerði þegar ég tók við þessu starfi var að óska eftir sögum af upplifun fólks í samskiptum við heilbrigðiseftirlitið. Það kom í kjölfar frétta af vandræðum Hygge með að fá starfsleyfi. Nokkrir höfðu samband og höfðu svipaða sögu af segja. Í öllum tilvikum var beðið um nafnleynd því þeir vildu ekki rugga bátnum. Þeir voru hræddir um að fólk tæki þetta persónulega og léti bitna á þeim. Ég hélt nú að svoleiðis ástand væri kannski í Rússlandi en ekki hér.“
Kostnaðarsöm bið
Fjölmargir veitingastaðir hafa þurft að bíða lengi eftir að fá starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Fram kom í Morgunblaðinu í gær að bakaríið Hygge hefði beðið í 231 dag.
Á föstudag var byggingarleyfi staðarins dregið til baka.
Veitingastaðurinn Kastrup var lokaður í rúman mánuð á meðan nýir rekstraraðilar biðu eftir leyfi. Þó hafði ekkert í rekstri veitingastaðarins breyst.
Opnun Starbucks frestaðist frá byrjun maí og fram í síðustu viku vegna nýrrar reglugerðar sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur framfylgdi. Fleiri staðir hafa lent í vandræðum af sömu sökum.