Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
AFL starfsgreinafélag á Austurlandi og Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ) munu að óbreyttu hefja undirbúning atkvæðagreiðslu í byrjun næsta mánaðar meðal félagsmanna um boðun verkfalls í álveri Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði. Hvorki hefur gengið né rekið í kjaraviðræðum stéttarfélaganna og álversins og slitnaði fyrir nokkru upp úr samningaviðræðunum.
Fram kom í síðustu viku að samningaviðræður AFLs og RSÍ við Alcoa hefðu siglt í strand og lýsti ríkissáttasemjari því yfir að hann myndi ekki aðhafast meira í deilunni að svo stöddu. Sumarleyfi eru hjá Ríkissáttasemjara í júlí og þótt embættið sé ekki lokað er ekki gert ráð fyrir því að formlegir fundir verði haldnir í júlí og fram í ágúst nema brýna nauðsyn beri til.
AFL og RSÍ eru samstiga í viðræðunum og hélt samninganefnd félaganna fund í seinustu viku til að undirbúa næstu skref, „en þar sem sumarleyfi eru nú í hámarki telur nefndin rétt að hinkra með undirbúning atkvæðagreiðslna um vinnustöðvum fram í ágúst“, segir í frétt á heimasíðu AFLs.
„Staðan er sú að á meðan ekkert heyrist eða gerist þá liggja viðræður niðri. Við höfum lýst því yfir að við munum í byrjun ágúst hefja atkvæðagreiðslu um verkföll. Það er langt ferli en við munum setjast yfir það í byrjun ágúst,“ segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs.
Kjaraviðræðurnar hófst í desember sl. en kjarasamningarnir runnu út í lok febrúar sl. og hafa viðræður reynst árangurslausar. Að sögn Hjördísar er það launaliður kjarasamninganna sem steytir á í viðræðunum. „Það hefur borið dálítið mikið á milli, því miður,“ segir hún.
Hún segir að starfsmennirnir í álverinu og stéttarfélög þeirra horfi til annarra stóriðjusamninga sem gerðir hafa verið „en Alcoa er á einhverri allt annarri vegferð en að horfa til þeirra“, segir hún.
Sex mánuðir þar til byrjað yrði að slökkva á kerum
Boðun vinnustöðvana í álveri Alcoa er mun lengra ferli en algengast er á vinnumarkaði þar sem tíma tekur að slökkva á kerum. Ákvæði er í kjarasamningi um að boðað verkfall komi fyrst til framkvæmda sex mánuðum eftir að boðunin hefur verið samþykkt í atkvæðagreiðslu. Þá fyrst hefst niðurkeyrsla og stöðvun kera í verksmiðjunni á allt að þriggja mánaða tímabili.