Við Hallgrímskirkju Max Frayne leggur mótherja sinn á sýningunni.
Við Hallgrímskirkju Max Frayne leggur mótherja sinn á sýningunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forystumenn Glímusambands Íslands hafa hafið átak til stuðnings íþróttinni. „Annars vegar viljum við reyna að efla áhuga á glímu sem íþrótt og hins vegar vekja athygli á og halda á loft arfleifð íþróttarinnar með varðveislu hennar í…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Forystumenn Glímusambands Íslands hafa hafið átak til stuðnings íþróttinni. „Annars vegar viljum við reyna að efla áhuga á glímu sem íþrótt og hins vegar vekja athygli á og halda á loft arfleifð íþróttarinnar með varðveislu hennar í huga,“ segir Guðmundur Stefán Gunnarsson formaður sambandsins.

Glíma hefur verið nefnd þjóðaríþrótt Íslendinga með vísan í iðkun hennar frá söguöld. Glímumenn áttu frumkvæði að stofnun fyrsta ungmennafélagsins, UMFA, 1906, Ungmennafélags Íslands 1907 og sameiningu íþróttahreyfingarinnar undir merkjum Íþróttasambands Íslands 1912. Jóhannes Jósefsson, kenndur við Hótel Borg, átti stóran hlut að máli, en hann kynnti glímu víða í Evrópu og Bandaríkjunum og var í fararbroddi glímumanna á Ólympíuleikunum í London 1908. Sigurjón Pétursson, glímukappi frá Álafossi, fór fyrir stofnun ÍSÍ. Íslandsglíman, þar sem keppt er um Grettisbeltið, fór fyrst fram 1906 að áeggjan Jóhannesar, fyrsta formanns UMFA og UMFÍ, og var Sigurjón glímukóngur Íslands 1910-1919. Glímudrottning Íslands var fyrst útnefnd árið 2000 að undangenginni keppni um Freyjumenið.

Hluti menningarinnar

Guðmundur Stefán leggur áherslu á að glíma sé hluti af íslenskri menningu og því sé mikilvægt að hennar sé getið í víðtæku umhverfi menningar í skólakerfinu, ekki síst þegar fjallað er um íþróttir og menningu. „Við höfum átt fundi með háskólafólki um málið og höfum hug á að ræða við viðeigandi ráðherra. Við eigum undir högg að sækja, bæði í menningunni og keppninni, og þurfum að snúa blaðinu við.“

Endurnýjun í glímunni hefur minnkað ár frá ári. „Þetta er vítahringur,“ útskýrir Guðmundur Stefán. Glíman geti ekki keppt við boltagreinarnar um athygli að óbreyttu og koma þurfi henni aftur inn í námskrá í íþróttum. „Öllu skiptir að kynna íþróttina samkvæmt fastmótaðri stefnu í skólunum.“

Glímusambandið er í Keltneska fangbragðasambandinu, FILC, og hefur Guðmundur Stefán verið formaður þess í rúm tvö ár. Það var stofnað til að viðhalda þekkingu í skoska fangbragðinu „backhold“ og „gouren“, sem er breskt að uppruna, og er vettvangur glímusambanda til að kynna fangbrögð sín. Í því sambandi bendir Guðmundur Stefán á að þörf sé á frekari rannsóknum. „Við vitum til dæmis ekkert um uppruna hryggspennu og lausataka.“

Auk þess hefur Glímusambandið hafið samstarf við félög sem eru til dæmis með bardagaíþróttir á dagskrá. „Við bjóðum þeim að koma til okkar og fáum í staðinn að kynna glímu í æfingatöflu þeirra enda tengist glíman orrustum.“

Undanfarin ár hefur Glímusambandið haldið æfingabúðir í samstarfi við Mjölni og BJJ Globetrotters og í lokin hefur verið glímusýning fyrir almenning. „Hún var núna við Hallgrímskirkju 28. júní, þar sem yfir 50 manns kepptu í bændaglímu og vakti mikla athygli viðstaddra,“ segir Guðmundur Stefán. Hann verður dómari í fjölmennasta móti í „backhold“ í Bretlandi í ágúst, í Grasmere, og þar verður Kristín Embla Guðjónsdóttir glímudrottning Íslands á meðal keppenda. Þrír Íslendingar keppa á sambærilegu móti á Sardiníu um svipað leyti og landsmót ungmenna í glímu verður einnig í ágúst.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson