Hvammsvirkjun Héraðsdómur felldi virkjunarleyfið úr gildi í janúar.
Hvammsvirkjun Héraðsdómur felldi virkjunarleyfið úr gildi í janúar. — Tölvumynd/Landsvirkjun
Dómsuppkvaðning fer fram í Hvammsvirkjunarmálinu í Hæstarétti í dag klukkan 11. Orkustofnun veitti Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun 12. september 2024 en það var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15

Kjartan Leifur Sigurðsson

kjartanleifur@mbl.is

Dómsuppkvaðning fer fram í Hvammsvirkjunarmálinu í Hæstarétti í dag klukkan 11.

Orkustofnun veitti Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun 12. september 2024 en það var fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar sl.

Hæstiréttur samþykkti að taka málið beint fyrir og þurfti það því ekki að fara fyrir Landsrétt enda er málið talið sérstaklega fordæmisgefandi.

Dómur héraðsdóms vakti hörð viðbrögð eftir að hann féll en Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar telur að hægt sé að túlka dóminn þannig að ekki sé hægt að ráðast í neinar nýjar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi.

Ljóst er að mikið er undir í Hæstarétti í dag enda er það ekki bara framtíð Hvammsvirkjunar sem veltur á niðurstöðu Hæstaréttar heldur í raun allar fyrirhugaðar framkvæmdir við vatnsaflsvirkjanir.

Framkvæmdir á svæðinu eru þegar hafnar samkvæmt fyrirliggjandi framkvæmdaleyfi en framkvæmdir við sjálfa virkjunina geta ekki hafist fyrr en Hæstiréttur hefur skorið úr um lögmæti virkjunarleyfisins. Landeigendur á svæðinu hafa kvartað yfir óþægindum vegna framkvæmdanna.

Höf.: Kjartan Leifur Sigurðsson