Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Bandarískur kjarnorkukafbátur af gerðinni Los Angeles leggst í dag að bryggju á Grundartanga í Hvalfirði. Segja má að um sögulegan viðburð sé að ræða en þetta er í fyrsta skipti sem kjarnorkuknúinn kafbátur kemur í íslenska höfn. Vera bátsins við bryggju er til marks um sterkt varnarsamstarf á milli Íslands og Bandaríkjanna og um leið getu Íslendinga til að standa undir skuldbindingum sínum gagnvart bæði Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu (NATO).
Bandaríski sjóherinn hefur yfir að ráða þrenns konar bátum, þ.e. eldflaugakafbátum (SSBN) af Ohio-gerð, árásarkafbátum (SSN) af gerðunum Los Angeles, Seawolf og Virginia og stýriflaugakafbátum (SSGN). Sá kafbátur sem hér um ræðir er svokallaður SSN-bátur og er hans helsta hlutverk að granda óvinveittum kafbátum og skipum.
Í ljósi áherslna íslenskra stjórnvalda um að hingað til lands komi ekki kjarnavopn má útiloka komu Ohio-báta. Þeir hafa það hlutverk sérstaklega að flytja kjarnavopn, eða 20 kjarnaflaugar af gerðinni Trident.
Þeir kafbátar Bandaríkjanna sem sótt hafa þjónustu við strendur Íslands undanfarið eru allir árásarkafbátar (SSN) og hefur samstarf ríkjanna gengið afar vel, að sögn varnarmálaskrifstofu.