Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Hann hefur um margt verið sérstakur þessi fyrsti þingvetur ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Stuttur sem hann hefur verið. Eftir linnulaus hrakföll fyrstu mánuðina var kallaður til verka nýr yfirfrakki yfir hluta þingmanna Flokks fólksins, sá…

Hann hefur um margt verið sérstakur þessi fyrsti þingvetur ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Stuttur sem hann hefur verið.

Eftir linnulaus hrakföll fyrstu mánuðina var kallaður til verka nýr yfirfrakki yfir hluta þingmanna Flokks fólksins, sá er af gárungunum kallaður búktalarinn, vegna sérstæðs áhuga á að stíga inn í viðtöl sem fréttamenn taka við ráðherra flokksins.

En það hefur vissulega lengst á milli alverstu uppákoma hjá stjórninni. En þá tók ekki betra við. Þingmálin voru svo illa unnin og fjarri því sum að vera þingtæk að nefndastarf hefur að hluta verið í hers höndum vikum og mánuðum saman. Allt magnast þetta upp þegar verkstjórnin vill á sínum fyrsta þingvetri ná fram viðlíka málafjölda og alla jafna næst á þingi sem hefst annan þriðjudag í september, en ekki í febrúar.

Skipulagsleysið hélt svo áfram. Risastór mál voru lögð fram þegar vel var komið fram yfir síðasta framlagningardag mála.

Til að stytta sér leið fóru verkstjórnarvalkyrjurnar þá leið að gefa bara styttri umsagnarfrest í málum, nú eða sleppa honum alveg. Allt lengdi það meðferð mála í nefndum og sömuleiðis umræðu í þingsal.

Svo er kvartað yfir því að stöku mál hafi reynst ganga hægar í gegnum umræðu í þingsal en væntingar stóðu til. Þegar kastað er til hendinni á fyrri stigum má reikna með að það þurfi að greiða fyrir það með viðbótarvinnu á seinni stigum.

Köllum þetta að kasta mínútum fyrir klukkutíma.

Steininn tók úr nú á þriðjudag þegar atvinnuvegaráðherra, vonandi léttur á brún að sinna tómstundum, skrifaði stöðufærslu á samfélagsmiðla þar sem fullyrt var að stjórnarandstaðan væri komin í málþóf vegna strandveiðimáls ráðherrans.

Það hitti þannig á að ég var í ræðustól þegar stóri málþófsdómurinn féll. Þar var ég að flytja fjórðu ræðuna sem flutt hafði verið við aðra umræðu málsins, ekki fjórðu ræðuna mína, nei, fjórðu ræðuna sem þingmenn, allir með tölu, höfðu samanlagt flutt í málinu.

Þetta var viðlíka mismat hjá ráðherranum og þegar búktalarinn… ég meina aðstoðarmaðurinn, tilkynnti um valdaránstilraun stjórnarandstöðunnar. En þá höfðum við þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna gert það af okkur að leggja fram dagskrártillögu til að aðstoða ráðherra ríkisstjórnarinnar við að koma sínum góðu málum (já, þau eru til) á dagskrá, framhjá forgangsröðun verkstjórans.

Það þótti sem sagt hinn mesti glæpur að leggja fram dagskrártillögu til samræmis við þingskaparlög. Gott og vel. Mögulega gæti einhver stríðni falist í aðgerð sem þessari. En staðreyndin er sú að í þau þrjú skipti sem stjórnarandstaðan hefur lagt slíka tillögu fram hefur efni hennar verið orðið að dagskrá næsta þingfundar, eða þess þar á eftir.

Þær voru sennilega ekki svo galnar eftir allt saman.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason