Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Utanríkisráðherra Ísraels sagðist í gær vera vongóður um að það takist að semja um vopnahlé á Gasasvæðinu og að gíslum, sem Hamas-samtökin halda þar, verði slept.
„Ef samningar nást um tímabundið vopnahlé munum við semja um varanlegt vopnahlé,“ sagði Gideon Saar í ræðu sem hann flutti í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu. Hann fullyrti að Ísraelsstjórn væri alvara þegar hún segðist vilja binda enda á átökin á Gasa sem hófust eftir hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael í október árið 2023.
Ekkert benti þó til þess að árangur væri í sjónmáli í óbeinum viðræðum Ísraels og Hamas sem fara fram í Doha, höfuðborg Katar.
AFP-fréttastofan hefur eftir palestínskum embættismanni, sem þekkir vel til viðræðnanna, að Ísraelsmenn vilji ekki fallast á hindrunarlausan flutning hjálpargagna til Gasa.
Annar palestínskur heimildarmaður sagði að ísraelska sendinefndin sæti og hlustaði í stað þess að taka þátt í beinum samningum sem endurspeglaði þá stefnu Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels að reyna að grafa undan hugsanlegu samkomulagi.
Sáttasemjarar í Katar vöruðu í vikunni við því að það kynni að taka tíma að ná samkomulagi um vopnahlé.
Þrýst á um samninga
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Netanjahú ræddu tvívegis saman í Washington í vikunni en Trump hefur þrýst á Ísraelsmenn að gera samkomulag um vopnahlé.
„Þetta er harmleikur og hann vill leysa málið, ég vil leysa málið og ég held að hin hliðin vilji það einnig,“ sagði Trump við blaðamenn og vísaði þar til Netanjahús og Hamas.
Eftir fundina sagði Steve Witkoff, sérlegur erindreki Trumps, að vonir stæðu til að samið yrði um 60 daga vopnahlé í vikulokin.
Það samkomulag fæli í sér að tíu gíslum, sem eru á lífi, yrði sleppt og líkum níu látinna gísla yrði skilað.
Alls var 251 tekinn í gíslingu í árás Hamas og af þeim eru 49 enn í haldi á Gasasvæðinu, þar með taldir 27 sem Ísraelsstjórn segir að séu látnir.
Ekkert lát á árásum
Ekkert lát er á aðgerðum Ísraelshers á Gasasvæðinu. Þannig sagði almannavarnastofnun Hamas á Gasa að 22 hefðu látið lífið, þar af að minnsta kosti sex börn, í árásum á svæði vestur af Khan Yunis og á flóttamannabúðir nálægt Gasaborg í gær.
Talsmaður Ísraelshers sagði að herinn væri að fara yfir tilkynningar um málið.
Ísraelskar hersveitir fóru einnig í gær yfir landamærin í suðurhluta Líbanon og gerðu árásir á mannvirki á vegum Hesbolla-samtakanna.
Ísrael og Hesbolla sömdu um vopnahlé í nóvember í fyrra en Ísraelsher hefur áfram gert árásir á hernaðarleg skotmörk á vegum samtakanna.