Sviðsljós
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Breytingar eru fyrirhugaðar á hinu sögufræga Amtmannshúsi á Arnarstapa. Svissneskir eigendur hússins hyggjast byggja svokallað vellíðunarhús á lóð hússins, en þar á að vera slökunarrými, þurrgufa, heitur pottur og verandir. Tillaga um breytingu á deiliskipulagi til að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir er nú í kynningu. Vellíðunarhúsið verður byggt í sama stíl og Amtmannshúsið og aðrar byggingar á lóðinni, bátaskýli, skemma og vinnustofa. Það verður klætt dökkri viðarklæðningu og með mænisþaki sem stallast niður með landslaginu. Þá verða útveggir klæddir að hluta til með hlöðnu grjóti líkt og núverandi veggir á lóðinni. Krads-arkitektar sjá um hönnun vellíðunarhússins.
Eigendur hússins eru svissneskir, hjónin Bernd-Michael og Petra Rumpf. Hún er tannlæknir og hann starfar í tölvugeiranum. Þau ferðuðust um landið árið 2018 og heilluðust af því. Árið eftir þegar Amtmannshúsið kom á sölu festu þau kaup á því og hafa notað það sem sumarhús fyrir fjölskylduna. Hafa hjónin látið gera miklar endurbætur á húsinu að innan og hyggjast nú ráðast í enn frekari framkvæmdir.
Húsið var látið grotna niður
Saga Amtmannshússins er merkileg. Það var byggt á tímabilinu 1774-1787 á Arnarstapa á vegum einokunarverslunarinnar. Íslenskur verslunarstjóri, Hans Hjaltalín, bjó í húsinu. Húsið var flutt að Vogi á Mýrum árið 1849. Um 1980 keypti Málarafélag Reykjavíkur jörðina í Vogi. Félagið nýtti nýrra hús á jörðinni sem sumarleyfishús en gamla húsið var látið grotna niður. Í Morgunblaðinu árið 1999 kom fram að Þór Magnússon þjóðminjavörður hefði um það leyti beðið Hjörleif Stefánsson arkitekt að skoða húsið fyrir Þjóðminjasafnið og leggja mat á hvort rétt væri að varðveita það. Þjóðminjasafnið hafði ekki fjármuni til þess að taka við húsinu og Málarafélagið vildi ekki gera við húsið. Þá var reynt að stofna félag til að bjarga húsinu en það tókst ekki. Málarafélagið hafnaði beiðni Hjörleifs og Sigrúnar Eldjárn konu hans um að gera við húsið þar sem það var.
„Málarafélagið vildi ekki hafa ágang óviðkomandi þarna. Enda leit húsið mjög illa út og virtist að hruni komið, rigningarvatn lak niður í gegn um það svo það virtist vera að brotna sundur um miðjuna og hrynja niður í steinkjallarann. Þá misstu þau þolinmæðina og sögðu: Við skulum þá bara hirða húsið! Það var auðsótt mál,“ sagði í viðtali við þau Hjörleif og Sigrúnu í Morgunblaðinu.
Þau hjónin gerðu nákvæmar teikningar og merktu hverja spýtu í húsinu áður en það var tekið niður. Timbrið var geymt á Korpúlfsstöðum áður en það var flutt að Arnarstapa, en þar fengu þau leigða lóð undir húsið á hólnum sem það hafði áður staðið á. Unnið var að endurgerð hússins næstu ár en Hjörleifur og Sigrún sáu að óðs manns æði var að eiga og reka húsið ein. Úr varð að fimm fjölskyldur áttu húsið saman.
Svissnesku hjónin eignuðust Amtmannshúsið árið 2019. „Þegar húsið var sett á sölu gátum við ekki stillt okkur um að koma aftur. Við bjuggum okkur undir harðan íslenskan vetur en okkur mætti í staðinn óviðjafnanlegt umhverfi. Það var eins og húsið hefði valið okkur,“ sagði Petra í viðtali við tímaritið The World of Interiors árið 2024.
Ikea-innrétting stakk í stúf
Ítarlega var fjallað um þetta einstaka hús í tímaritinu og þær breytingar sem hjónin hafa gert á því. Rakið er að þeim hafi fundist vel að endurgerð hússins staðið að utan en innréttingar hafi ekki verið í anda hússins. Ikea-eldhúsinnrétting hafi til að mynda stungið í stúf. Hjónin fengu hönnuðinn Hálfdan Pedersen, sem hefur hannað fjölda veitingastaða, til að hanna húsið að innan. Hann hófst handa árið 2020 og verkið tók tvö ár að því er fram kemur í tímaritinu. Erfitt reyndist að fá efni sem hentaði húsi frá 18. öld. Segir Hálfdan að gamalt timbur hafi ekki fengist hér á landi og hann hafi því þurft að leita út fyrir landsteinana eftir því. Honum reyndist sömuleiðis erfitt að finna smiði sem unnið gátu eftir gömlum aðferðum. Alls komu sjö smiðir að verkinu. Þá reyndist sömuleiðis mjög erfitt að koma húsgögnum inn í húsið í gegnum þröngar dyr og glugga. Sérsmíðaður sófi sem tók sex mánuði að gera komst til að mynda ekki inn.
Í umfjöllun tímaritsins segir að húsið sé eins og klippt út úr ævintýri. Á neðri hæðinni er gömul kamína í stofunni, á veggjum þar eru myndir af svæðinu í kring og ofnir púðarnir í sófanum minna á íslenskt heimilishald á fyrri tíð. Þá voru furuplankar sem notaðir voru í rúm í tveimur svefnherbergjum fengnir úr gamla Kvennaskólanum í Reykjavík þegar unnið var að byggingu Parliament-hótelsins við Austurvöll.
Öll gluggatjöld eru gerð úr gömlum viskustykkjum, íslenskum og sænskum. Þá var listakonan Kristín Magnúsdóttir fengin til landsins frá Ítalíu til að mála fugla fyrir ofan dyr í húsinu.
Í viðtali í The World of Interiors segir Petra að fjölskyldan komi hingað til lands á hverju sumri og yfir áramótin. Með í för eru þá afar og ömmur, frændfólk og vinir. Heimsóknirnar eru að þeirra mati ómetanlegar samverustundir enda eru synir hjónanna dreifðir um heiminn við nám og störf. „Húsið er eins og sameiningarmáttur, örugg heimahöfn þar sem við getum notið þeirra sjaldgæfu augnablika sem við eyðum saman.“
Merkileg saga
Amtmannshúsið var byggt á Arnarstapa á tímabilinu 1774-1787. Húsið var flutt að Vogi á Mýrum árið 1849 en aftur á upprunalegan stað árið 1985.
Hjörleifur Stefánsson arkitekt og Sigrún Eldjárn myndlistarkona og rithöfundur áttu húsið lengi í félagi við fjórar aðrar fjölskyldur. Svissnesk hjón eignuðust það 2019.