Bifhjólamaður lét í gærmorgun lífið í umferðarslysi á Miklubraut í Reykjavík. Hinn látni var fimmtugur karlmaður, en ekki er unnt að greina frá nafni hans að svo stöddu. Er þetta á meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Maðurinn ók bifhjóli sínu vestur Miklubraut þegar slysið varð. Var hann þá staddur á móts við Skeifuna. Ekki er ljóst hvað olli óhappinu en lögreglan og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Tilkynnt var um slysið laust fyrir klukkan níu í gærmorgun og voru minnst tveir sjúkrabílar sendir á vettvang ásamt lögreglu. Loka þurfti fyrir umferð um Miklubraut að hluta á meðan unnið var á vettvangi. Lögregla óskar nú eftir vitnum. Þetta er sjöunda banaslysið í umferðinni það sem af er ári.