Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í gær að Rússar hefðu brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu með margvíslegum hætti með innrásinni í Úkraínu árið 2022 og með því að styðja aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu frá árinu 2014.
Niðurstaðan er táknræn, því Rússum var vikið úr Evrópuráðinu eftir innrásina í Úkraínu og Rússar sögðu sig frá Mannréttindasáttmála Evrópu í september það ár. Dómstóllinn fjallar þó áfram um mál gegn Rússum sem vísað var þangað fyrir þann tíma.
Sautján dómarar voru á einu máli um að dráp Rússa á óbreyttum borgurum og úkraínskum hermönnum, pyntingar, þrælkunarvinna og ólöglegar handtökur hefðu brotið gegn mannréttindasáttmálanum.
Dómararnir komust einnig að þeirri niðurstöðu að Rússar hefðu brotið gegn sáttmálanum með því að flytja börn frá Úkraínu til Rússlands. Sagði dómurinn að Rússar yrðu án tafar að sleppa eða flytja til baka alla þá sem hefðu verið sviptir frelsi á úkraínsku landsvæði.
Fjórar kærur
Mannréttindadómstóllinn fjallaði í málinu um fjórar kærur á hendur Rússum. Þrjár voru frá úkraínskum stjórnvöldum vegna aðgerða Rússa í Úkraínu frá 2014 til 2022 en sú fjórða var frá hollenskum stjórnvöldum vegna malasískrar farþegaflugvélar sem var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu árið 2014 með þeim afleiðingum að 298 létu lífið. Alþjóðaflugmálastofnunin hefur komist að þeirri niðurstöðu að rússnesk stjórnvöld beri ábyrgð á því að vélin var skotin niður.
Dómstóllinn segir í niðurstöðu sinni að þjáningar aðstandenda þeirra sem létu lífið í árásinni á flugvélina væru brot á rétti þeirra til að þurfa ekki að sæta pyntingum og refsingum.
Stjórnvöld í Úkraínu og Hollandi fögnuðu niðurstöðu dómstólsins í gær en Dmitrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, sagði að Rússar myndu ekki bregðast við með neinum hætti enda væru dómar dómstólsins marklausir.
Umfangsmiklar árásir
Rússar gerðu í gær umfangsmestu loftárásir á Úkraínu frá því að innrásarstríðið hófst. Að sögn úkraínska hersins var 728 árásardrónum og 13 flugskeytum beitt í árásunum en loftvarnakerfi náðu að granda 711 drónum og 7 flugskeytum. Að sögn úkraínskra stjórnvalda létu átta óbreyttir borgarar lífið í Kúrsk-héraði í árásunum. Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði að árásirnar hefðu beinst að herflugvelli nálægt pólsku landamærunum og öllum skotmörkum hefði verið eytt.