Guðlaugur Þór Þórðarson
Ráðherrar og stjórnarliðar vilja ekki ræða þá staðreynd að ríkisstjórnin fór ekki að lögum um opinber fjármál eftir að hún tók við. Þrátt fyrir að skýrt sé að ríkisstjórn eigi að leggja fram fjármálastefnu svo fljótt sem auðið er og þingið eigi að ræða hana og samþykkja. Fjármálaáætlunin á að byggjast á samþykktri fjármálastefnu. Fjárlög eru þá byggð á samþykktri fjármálaáætlun. Samanber lögin:
4. gr. Fjármálastefna
Ríkisstjórn skal, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu sem ráðherra leggur fram á Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar svo fljótt sem auðið er, en þó eigi síðar en samhliða framlagningu næsta frumvarps til fjárlaga.
Ályktun Alþingis um fjármálastefnu skal leggja til grundvallar við gerð fjármálaáætlunar sem lögð er fyrir Alþingi ár hvert.
Í 5. grein segir: „Fjármálaáætlunin skal byggð á fjármálastefnu skv. 4. gr. og skilyrðum hennar skv. 7. gr.“
Úr greinargerð með lögunum.
„Nánari markmiðssetning í fjármálaáætlun felur í sér ítarlegri sundurgreiningu þeirra markmiða sem Alþingi hefur sett með samþykkt fjármálastefnu, svo sem er varðar skattastefnu og aðra tekjuöflun, þróun efnahags og þróun útgjalda eftir málaefnasviðum og hagrænni flokkun.“
Athugasemdir við 4. gr.:„Brýnt er hins vegar að það fyrirkomulag sem frumvarpið mælir fyrir um varðandi tengsl fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlaga sé virt, og því er mikilvægt að fjármálastefna sem Alþingi hefur fjallað um og samþykkt liggi fyrir þegar þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun eða frumvarp til fjárlaga eru lögð fyrir Alþingi. Fjármálastefnan er grundvöllur beggja.“
„Í 4. mgr. er tekið fram að við gerð fjármálaáætlunar skuli byggt á samþykktri fjármálastefnu, enda er fjármálaáætlun ætlað að fela í sér útfærslu á þeim leiðum sem fara skal svo að markmiðum fjármálastefnu verði náð.“
Athugasemdir við 5. gr.: „Fjármálaáætlun felur í sér ítarlega útfærslu á markmiðum fjármálastefnu og stefnumörkun um tekjur og gjöld opinberra aðila og þróun þeirra.“
Núverandi ríkisstjórn sagðist ætla að koma með fjármálastefnu í febrúar en kom með hana einum þingdegi á undan fjármálaáætlun.
Hvað sagði í umsögn fjármálaráðs?
Fjármálaráð kemur með umsögn um fjármálastefnu og fjármálaáætlun við framlagningu þeirra. Hér er vitnað beint í þeirra umsögn.:
„Lög um opinber fjármál kveða á um að ályktun Alþingis um fjármálastefnu skuli liggja til grundvallar við gerð fjármálaáætlunar sem lögð er fyrir Alþingi ár hvert. Þegar fjármálastefna og fjármálaáætlun eru lagðar fram með einungis nokkurra daga millibili er þetta skilyrði ekki uppfyllt.“ Bls 4.
„Fjármálastefnan á að standa sjálfstæð og leggja grunn að öðrum þáttum stefnumörkunar í opinberum fjármálum. Til þess að stefnan geti þjónað því hlutverki þarf hún að vera lögð fram og afgreidd af hálfu þingsins áður en fjármálaáætlun er lögð fram.“ Bls 5.
„Að fjármálastefna og fjármálaáætlun liggi nú samtímis fyrir Alþingi rýrir trúverðugleika stefnunnar þar sem hún getur ekki uppfyllt það akkerishlutverk sem henni ber. Í framlagðri fjármálastefnu er fjallað um hagræðingaraðgerðir og forgangsröðun verkefna en slíkt ætti að birtast í fjármálaáætlun.“ Bls 5-6.
Það er enginn vafi að ríkisstjórnin fór ekki að lögum um opinber fjárlög. Það er ekki einungis skattafrumvarpið á sjávarútveginn sem er illa unnið. Stjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur sett verklag um fjárlög og tengda vinnu áratug eða lengra aftur í tímann. Almenningur mun bera þann kostnað fyrr en seinna.Ekki gleyma því hvernig þessir flokkar hafa farið með fjármál Reykjavíkurborgar.
Höfundur er þingmaður Reykvíkinga.