Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Breska blaðið The Times bætti á dögunum fimm bókum við lista yfir bestu glæpasögur ársins 2025 fram að þessu. Ein af þeim er Heim fyrir myrkur eftir Evu Björgu Ægisdóttur og líkir gagnrýnandinn Mark Sanderson höfundinum við sjálfa Ruth Rendell.
„Heim fyrir myrkur er margbrotin saga, sem verður stöðugt óhugnanlegri, um ástir ungmenna, brotnar fjölskyldur, löngu grafin leyndarmál og pennavini sem eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Enn og aftur er Íslandi lýst sem framandi landi sem er hlaðið fögru fólki og ljótri hegðun. Sálfræðileg dýpt bókarinnar og líkamleg áföll minna á verk hinnar frábæru Ruth Rendell,“ segir í umsögninni.
Margir þekktir höfundar eru á lista The Times yfir bestu glæpasögur ársins. Þar á meðal eru Camilla Läckberg, Michael Connelly, Anthony Horowitz og hin finnsk-íslenska Satu Rämö.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem The Times hampar verkum Evu Bjargar. Í fyrra valdi blaðið Stráka sem meiða eina af fimm bestu glæpasögum júnímánaðar þar í landi. Þá ritaði gagnrýnandi blaðsins meðal annars um Evu Björgu:
„Hún notar flóknar fléttur til að kanna hvernig skrímsli verða til og sýna að „illskan [er] oft falin á bak við fallegustu brosin“. Persónur hennar eru fólk, ekki brúður, og hún nýtur þess að kippa fótunum undan þeim – og okkur. Ef þú hefur aldrei lesið bækur Evu Bjargar er kominn tími til að byrja.“
Eva Björg hlaut Blóðdropann, Íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir Heim fyrir myrkur árið 2023. Fyrsta glæpasaga Evu Bjargar, Marrið í stiganum, hlaut Gullrýtinginn sem frumraun ársins. Önnur bók hennar, Stelpur sem ljúga, var tilnefnd til sömu verðlauna sem glæpasaga ársins.
Fyrir þremur árum sagði gagnrýnandi The Times að Eva Björg yrði næsta stórstjarna íslensku glæpasögunnar og valdi Næturskugga eina af fimm bestu glæpasögum júlímánaðar.
Árið 2023 valdi The Times bók hennar Þú sérð mig ekki sem bestu glæpasögu júlímánaðar. Financial Times valdi sömu bók sem eina af fimm bestu glæpasögum sumarsins 2023.