Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Andrea Ólöf Hjaltadóttir byrjaði með eigin bát, Ragnar Alfreðs GK 183, á strandveiðum í maí og gerir út frá Sandgerði. Hún er 29 ára og fékk sjómannsbakteríuna fyrir um fimm árum. Byggði upp reynslu á sjó með Róbert Heiðari Georgssyni fósturföður sínum, aflaði sér tilskilinna skipstjórnarréttinda og stökk síðan út í djúpu laugina ein síns liðs. „Mig langaði að prófa að starfa sem sjómaður, byrjaði á handfærum og fór síðan á línu og féll strax fyrir starfinu, fannst þetta mjög gaman,“ segir hún. „Sjórinn togaði í mig og gerir enn.“
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða varð til þess að strandveiðar hófust sumarið 2009. Heimilt var að veiða 3.955 tonn af óslægðum þorski á handfæri í júní, júlí og ágúst. 595 strandveiðileyfi voru veitt og stunduðu 554 bátar veiðarnar. Nú hófst strandveiðitímabilið 5. maí og stendur í 48 daga. Fyrir tímabilið veitti Fiskistofa 775 leyfi til að veiða 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa. 1.032 þorsktonnum var bætt við fyrir helgi.
Næst á ufsa og línu
Ragnar Alfreðs er 47 ára gamall netabátur, sem Róbert hefur gert út undanfarin ár, en hann er nú með annan bát á strandveiðunum. Bilanir og bræla hafa sett strik í reikninginn og Andrea því ekki komist í marga róðra. „Það hefur samt gengið ágætlega, þegar ég hef komist á sjó. Ég hef mest fengið tæplega hálft tonn í róðri.“ Hún segir tilfinninguna ólýsanlega að draga fisk úr sjó. „Þegar vel gengur er ekki annað hægt en að vera stolt af árangrinum.“
Áður en Andrea lá kylliflöt fyrir sjómennskunni vann hún á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ í fimm ár og þar áður var hún í ýmsum þjónustustörfum. „Ég held að ég geti ekki farið að vinna aftur í landi eftir þessa reynslu á sjó.“ Hún segir þetta reyndar spaugilegt, því að þegar hún var yngri hafi hún ekki verið hrifin af fiskum. „Þeir voru ekki beint í uppáhaldi hjá mér og það hvarflaði aldrei að mér að ég ætti eftir að verða sjómaður. Þegar ég byrjaði á sjó var ég sama sinnis, hélt að ég næði ekki tökum á sjómennskunni, en annað kom á daginn. Þetta er það besta sem ég hef gert.“
Þrátt fyrir góðan undirbúning var Andrea svolítið kvíðin yfir að vera ein á báti. „Ég var með kvíðahnút í maganum þegar ég lét úr höfn, var stressuð, þó að ég kynni þetta allt og vissi hvað ég ætti að gera, en ég hristi þetta fljótt af mér. Þetta var skrýtin tilfinning en mér líður vel einni úti á sjó. Það eru líka margir bátar á sama svæði hérna rétt utan við Sandgerði og ég get látið vita ef eitthvað amar að.“
Þegar strandveiðunum lýkur taka Róbert og Andrea á ný við Geirfugli GK 66 í eigu Stakkavíkur. „Við byrjum á ufsa og förum svo á línu í september,“ segir hún ákveðin og um leið spennt.