Fréttaskýring
Diljá Valdimarsdóttir
dilja@mbl.is
Þrátt fyrir að konum hafi fjölgað í lögmannastéttinni hefur hlutdeild þeirra í úthlutun þrotabúa staðið í stað og verið undir væntingum síðustu ár. Tölur frá Dómstólasýslunni og greining sem birt var í Lögmannablaðinu sýnir að karlar eru áfram í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem fá úthlutað þrotabúum til meðferðar. Konur fengu einungis 28% allra úthlutana árið 2024, þrátt fyrir að vera tæplega þriðjungur þeirra lögmanna sem eru skráðir á lista yfir skiptastjóra.
Af 994 þrotabúum sem úthlutað var til lögmanna árið 2024 voru 715 úthlutanir til karla en aðeins 279 til kvenna. Meðal þeirra 287 lögmanna sem fengu úthlutanir voru 201 karl og 86 konur. Þetta þýður að karlar fengu 72% allra þrotabúa það ár og konur aðeins 28%. Kynjahlutföllin í úthlutunum virðast því vera nánast óbreytt frá árinu 2014, en á tímabilinu 2014-2024 voru konur skipaðar í um 30% tilvika í samtals 12.213 gjaldþrotaskiptum.
Þessar tölur staðfesta að jafnréttisstefna um jafna skiptingu verkefna milli kynja hefur haft lítil áhrif, jafnvel þótt nýjar reglur, nr. 5/2024, hafi tekið gildi um áramót og kveði á um skrá yfir skiptistjóra og gagnsæi í úthlutunum.
Misjafnt milli héraðsdómstóla
Við nánari greiningu á skiptingu eftir héraðsdómstólum kemur í ljós að þátttaka kvenna er mjög breytileg milli landshluta. Í Héraðsdómum Reykjavíkur, Reykjaness, Norðurlands eystra og Norðurlands vestra var hlutfall kvenna í takt við landsmeðaltal en víða utan höfuðborgarsvæðisins var það mun lægra og í einu tilviki fékk engin kona úthlutun.
Samkvæmt myndritinu sem Lögmannablaðið birti upphaflega voru hlutföll kvenna í úthlutunum eftirfarandi árið 2024:
34% þrotabúa var úthlutað til kvenna af Héraðsdómi Reykjaness. 33% þrotabúa var úthlutað til kvenna af Héraðsdómi Norðurlands vestra og svipaðar tölur voru hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og Héraðsdómi Norðurlands eystra en í síðarnefndu dómstólunum var 31% þrotabúa úthlutað til kvenna. Héraðsdómur Austurlands og Héraðsdómur Vestfjarða úthlutuðu 14% þrotabúa til kvenna. 7% þrotabúa var úthlutað til kvenna af Héraðsdómi Suðurlands og engin kona fékk úthlutun þrotabúa frá Héraðsdómi Vesturlands.
Í Reykjavík var 536 þrotabúum úthlutað til 170 lögmanna. 118 karlar fengu úthlutuð 369 bú og 52 konur fengu úthlutuð 167 bú. Á Suðurlandi var úthlutað 68 þrotabúum, þrjú þeirra fóru til kvenna. Á Austurlandi fengu sex karlar og ein kona skiptastjórn í samtals 14 búum. Á Norðurlandi eystra fengu 16 lögmenn skiptastjórn í 55 búum, þar af voru ellefu karlar með 38 bú og fimm konur með 17 bú. Á Norðurlandi vestra fengu þrír lögmenn skiptastjórn í níu búum, þar af tveir karlar og ein kona.
Hlutfall kvenna í úthlutunum virðist almennt í samræmi við fjölda kvenna sem skráðar eru sem skiptastjórar, en samt er ljóst að karlar fá fleiri verkefni að meðaltali. Til að mynda voru karlar 71% þeirra sem fengu úthlutun árið 2024.
Á árinu 2024 komu fjögur stærri þrotabú fyrirtækja til úthlutunar, bú þar sem fyrirtæki höfðu fleiri en fimm starfsmenn og veltu yfir 150 milljónum króna á ári. Engri konu var falið að skipta þessum þrotabúum.
Til að vera úthlutað slíku búi þurfa lögmenn að hafa réttindi til málflutnings fyrir Landsrétti, hafa skipt að lágmarki tíu þrotabúum án athugasemda og ekki brotið gegn ákvæðum gjaldþrotalaga. Þrátt fyrir að engar konur hafi fengið slík þrotabú úthlutuð var ekki rakið hversu margar konur uppfylltu þessi skilyrði.
Vilja stuðla að gagnsæi
Lögmannablaðið bendir á að skrá yfir skiptastjóra hafi verið sett á laggirnar árið 2024 í þeim tilgangi að stuðla að gagnsæi og jafnræði við úthlutun. Þá er kveðið á um að upplýsingum um kyn og fjölda úthlutana verði safnað og birt með reglulegu millibili.
Í lögum og reglugerðum er skýrt kveðið á um að dómstólar skuli gæta jafnræðis milli kynja við skipun skiptastjóra. Á tíu ára tímabili frá 2014 til 2024 höfðu konur einungis verið skipaðar í 30% allra mála af 12.213 skipunum.
Þrátt fyrir þessar ráðstafanir sýna nýjustu tölur að kynjahlutföll í úthlutunum haldast nokkuð föst og að konur fá ívið færri og að jafnaði minni úthlutanir en karlar. Meðal þeirra sem fengu úthlutanir frá fleiri en einum dómstól voru konur í miklum minnihluta.
Konurnar eru með reynsluna
Eva Dóra Kolbrúnardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku, segir í samtali við Morgunblaðið alveg ljóst að konur skorti ekki reynslu þegar kemur að úthlutun þrotabúa. Margar konur hafi skipt mörgum þrotabúum og uppfylli þær kröfur sem þurfi til að fá úthlutað þrotabú. Samt sem áður fái konur sjaldan eða aldrei að skipta stærri búum. Þetta endurspegli ákveðið traustleysi gagnvart konum sem starfi á þessu sviði lögfræðinnar.