Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir fundi í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem farið verði yfir nýfallinn dóm Hæstaréttar, sem staðfesti dóm héraðsdóms þess efnis að fella úr gildi virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar

Björn Diljan Hálfdanarson

bdh@mbl.is

Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir fundi í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem farið verði yfir nýfallinn dóm Hæstaréttar, sem staðfesti dóm héraðsdóms þess efnis að fella úr gildi virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Formaður nefndarinnar og þingmaður Viðreisnar segir að sækja þurfi um bráðabirgðaleyfi.

Í júnímánuði samþykkti Alþingi frumvarp Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem lagt var fram til að að bregðast við niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að fella virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi.

Ráðherra ætlaði sér að höggva á þann hnút sem myndast hafði í málinu með frumvarpinu. Sigríður Á. Andersen þingmaður Miðflokksins segir að löggjöfin hafi síður en svo afrekað það, en í gær varð ljóst að Hæstiréttur staðfesti ákvörðun héraðsdóms um ógildingu virkjanaleyfisins.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur undir orð Sigríðar og segir að öll stjórnarandstaðan hafi staðið á bak við ríkisstjórnina þegar löggjöfin var samþykkt. Hann segir að nú sé ljóst að löng bið verði þar til málinu þoki áfram og bendir á mikilvægi þess að Alþingi setji það í forgang.

Niðurstaðan kom ekki á óvart

Arna Lára Jónsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir ekkert hafa komið á óvart við niðurstöðu Hæstaréttar, þar sem dæmt hafi verið eftir gamalli löggjöf.

Hún undirstrikar mikilvægi þess að verkefnið fari í framkvæmd og segir að nú sé mál að sækja um nýtt virkjunarleyfi á grundvelli nýrra laga.

Guðbrandur Einarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir Alþingi hafa gert allt sem til þurfti og segir það hafa verið ákvörðun Landsvirkjunar að bíða úrskurðar dómsins. Hann leggur til að sótt verði um bráðabirgðaleyfi.

Miðflokksmenn leggja til að sérlög verði sett um framkvæmd þessarar virkjunar.

Höf.: Björn Diljan Hálfdanarson