Tveggja síðna ástarbréf sem John Lennon sendi Cynthiu Powell, síðar eiginkonu hans, frá Hamborg í apríl árið 1962 seldist á uppboði hjá Christie’s í Lundúnum í gær fyrir 69.300 pund, jafnvirði nærri 11,5 milljóna króna. Söluverðið var um 30 þúsund pundum hærra en matsverðið.
Þegar Lennon skrifaði bréfið voru Bítlarnir ekki enn orðnir frægir en hljómsveitin dvaldi þá í Hamborg og spilaði á skemmtistöðum.
„Ég elska elska elska þig og sakna þín brjálæðislega,“ skrifaði Lennon, sem þá var 21 árs gamall. „Paul (McCartney) hleypur á höfðinu á mér (hann er í koju fyrir ofan mig og hrýtur).”
John og Cynthia kynntust í listaskóla í Liverpool árið 1958. Þau giftu sig í ágúst 1962 og eignuðust soninn Julian árið eftir en skildu árið 1968. Lennon var myrtur í New York árið 1980. Cynthia, sem lést árið 2015, seldi bréfið til sænsks safnara árið 1991 en hafði áður þurrkað út tvær setningar sem henni hefur væntanlega þótt of bersöglar.