Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Þetta er auðvitað skellur, en góðu fréttirnar eru þær að við erum búin að breyta þeim atriðum í lögum um stjórn vatnamála sem virkjunarleyfið strandaði á. Við erum líka búin að setja inn ákvæði um bráðabirgðaleyfi, þannig að nú getur virkjunaraðilinn sótt hratt og örugglega um nýtt virkjunarleyfi á grundvelli nýrra laga þar sem heimildir Umhverfis- og orkustofnunar í þessum efnum eru algerlega ótvíræðar,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Leitað var viðbragða hans við dómi Hæstaréttar um Hvammsvirkjun sem staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi. „Ég er í þéttu sambandi við Umhverfis- og orkustofnun um það hvernig við getum hlaupið eins hratt og kostur er. Það er samvinnuverkefni okkar næstu vikur að lágmarka tafir og fjárhagstjón eins og kostur er. Ég get sagt það hreint út að Hvammsvirkjun verður að veruleika. Það á ekki að vera nein óvissa um það,“ segir Jóhann Páll.