Nýjar höfuðstöðvar Byggingin, sem verður áberandi, verður tekin í notkun eftir um tvö ár.
Nýjar höfuðstöðvar Byggingin, sem verður áberandi, verður tekin í notkun eftir um tvö ár. — Teikning/Kjartan Rafnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fimm hraðhleðslugarðar frá Tesla munu bætast við í sumar. Þrír hafa verið teknir í notkun en þeir eru á Egilsstöðum, í Efstadal og á Blönduósi. Þá verða tveir nýir garðar opnaðir á næstunni í Hveragerði og á Hólmavík

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fimm hraðhleðslugarðar frá Tesla munu bætast við í sumar. Þrír hafa verið teknir í notkun en þeir eru á Egilsstöðum, í Efstadal og á Blönduósi. Þá verða tveir nýir garðar opnaðir á næstunni í Hveragerði og á Hólmavík.

Með tveimur síðastnefndu görðunum verða komnar samtals 125 hleðslustöðvar um land allt eins og sýnt er á grafi hér til hliðar. Þá verður hleðslustöðvum við Álfabakka fjölgað úr átta í sextán á næstunni. Hraðhleðslustöðvar Tesla eru opnar öllum rafbílaeigendum.

Með þessari uppbyggingu er Tesla að mæta mikilli eftirspurn eftir hleðslustöðvum en notkunin hefur verið umfram væntingar.

Fleiri staðir í skoðun

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er til skoðunar að fjölga hraðhleðslustöðvum frá Tesla enn meira um landið og munu fleiri staðsetningar vera í skoðun.

Tesla hefur fleiri járn í eldinum. Framkvæmdir standa nú yfir við nýjar höfuðstöðvar Tesla á Íslandi. Þær rísa á tæplega 16 þús. fermetra lóð í Borgahellu 6 í Hafnarfirði.

Félagið Bæjarbyggð, dótturfélag Eignabyggðar, er að reisa höfuðstöðvarnar sem verða stálgrindarhús með steyptum kjarna. Leigusamningur var undirritaður fyrir jól og er áformað að afhenda húsið öðrum hvorum megin við áramót 2026/27.

Húsið verður rúmlega 6.000 fermetrar og mun Tesla á Íslandi leigja stærstan hluta þess. Byggingin verður tveggja hæða stálgrindarhús með steyptum 800 fermetra kjarna. Hún er hönnuð í samvinnu við Tesla og mun rúma sölu-, þjónustu- og afhendingardeildir framleiðandans.

Hornlóð í Hafnarfirði

Byggingarlóðin er hornlóð, á mótum Borgahellu og Búðahellu, og verður aðalinngangurinn sýnilegur frá Krýsuvíkurvegi.

Tesla á sér ekki langa sögu á Íslandi. Árið 2018 voru nýskráðar þrjár Tesla-bifreiðar en 44 árið 2019. Tesla opnaði þjónustumiðstöð á Íslandi haustið 2019 og árið 2020 voru fluttar inn 903 Tesla-bifreiðar, eða ríflega tuttugufalt fleiri en árið áður. Síðan hefur salan aukist en samkvæmt ökutækjaskrá Samgöngustofu eru nú skráðar 8.044 Tesla-bifreiðar á Íslandi en 42 hafa verið skráðar úr umferð.

Árið 2023 seldust 3.255 eintök af Tesla Model Y á Íslandi, sem er met.

Það sem af er ári hafa 684 Tesla-fólksbifreiðar verið skráðar á Íslandi og er Tesla þar með þriðja mest selda fólksbílategundin á árinu.

Höf.: Baldur Arnarson