Þórarinn Ingi Pétursson
Þórarinn Ingi Pétursson
Það verður að fresta málinu. Greinin þarf að geta borgað góð laun, fjárfest í sjálfbærri og skilvirkri tækni og þannig ræktað framtíðina.

Þórarinn Ingi Pétursson

Umræða um hækkun veiðigjalda hefur eðlilega vakið mikla athygli síðustu daga og vikur. Það er í sjálfu sér skiljanlegt, enda boðar frumvarp ríkisstjórnarinnar verulega hækkun veiðigjalda og gæti haft meiri háttar áhrif á útgerðir um allt land, einkum minni útgerðir.

Rétt er að taka fram að við sýnum því skilning að margir telji hækkun veiðigjalda eðlilega. En við getum ekki valdið óbætanlegu tjóni vítt og breitt um landið, valdið uppsögnum og jafnvel tapi fyrirtækja, með illa undirbúnu frumvarpi um aukin veiðigjöld.

Ásakanir ríkisstjórnarinnar um málþóf og „tafaleik“ eru því afar ósanngjarnar, sbr. grein Þórðar Snæs Júlíussonar, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar, hinn 8. júlí sl.

Virk stjórnarandstaða stöðvar ekki bara skaðleg frumvörp, hún verndar fólk og fyrirtæki.

Sægreifar eða samfélagsstoð?

Sjávarútvegurinn hefur lengi verið einn helsti burðarás íslensks atvinnulífs. Þrátt fyrir að sumir bendi á stórgróða í greininni og háar arðgreiðslur til eigenda, oft vísað til sem sægreifa, er mikilvægt að muna að sjávarútvegur er atvinnuvegur sem tryggir búsetu í fjölmörgum byggðum landsins. Hundruð fjölskyldna tengjast störfum í greininni og því þarf ákvarðanataka um framtíð hennar að vera byggð á traustum grunni.

Vinsæl tilvísun til hinna fjögurra fjölskyldna sem eigi allt í greininni er því einfaldlega barnaleg. Einmitt þess vegna er mikilvægt að skoða áhrif frumvarpsins ítarlega áður en óafturkræfar ákvarðanir eru teknar.

Ef frumvarp um hækkun veiðigjalda verður samþykkt óbreytt gæti það reynst stórslys fyrir margar byggðir og jafnvel verið flokkað sem skemmdarverk gegn samfélagslegri festu víða um land. Ljóst er að mörg fyrirtæki munu neyðast til að segja upp fólki, sem aftur leiðir til vaxandi óvissu í byggðum þar sem störfum mun fækka. Slíkar aðstæður myndu hafa víðtæk áhrif á grunnþjónustu eins og heilsugæslu, menntamál og félagslega þjónustu sem þegar er viðkvæm í smærri samfélögum.

Hagvöxtur í hættu og fjölskyldur borga brúsann

Minni fjárfesting í sjávarútvegi í kjölfar hærri veiðigjalda mun hafa áhrif á hagvöxt. Það mun bitna beint á fjölskyldum og ýmsum byggðarlögum, hugsanlega með lækkun fasteignaverðs og minni fjárfestingu í nýju húsnæði. Íbúum fækkar, þjónusta versnar og hætta er á að byggðafesta veikist verulega. Getum við tekið þá áhættu?

Það má ekki keyra þetta mál áfram svo vanhugsað. Það verður að fresta málinu. Við verðum að vita hvað greinin getur greitt svo vel sé. Greinin þarf að geta borgað góð laun, fjárfest í sjálfbærri og skilvirkri tækni og þannig ræktað framtíðina. Landið allt – allir með.

Virk stjórnarandstaða er hverju sinni varnargarður almennings gegn ábyrgðarlausum frumvörpum ríkisstjórna. Við þurfum að fresta afgreiðslu frumvarpsins til hausts, láta framkvæma eiginlega áhrifagreiningu, vanda til verka og draga þannig úr hættulegri óvissu fyrir byggðir landsins.

Höfundur er þingmaður Framsóknar.

Höf.: Þórarinn Ingi Pétursson