Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Útlendingastofnun hefur tekið ákvörðun um að fresta afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd frá Sýrlendingum. Ríkisstjórnin er með þá stefnu að samræma reglur við nágrannaríki í þessum málaflokki og því mikilvægt að fylgjast náið með þróun mála.“ Svo segir í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins, en tilefni fyrirspurnarinnar var að bæði Þýskaland og Austurríki hafa ákveðið að vísa sýrlenskum flóttamönnum úr landi sem gerst hafa brotlegir við lög.
Eftir að stjórnarskipti urðu í Sýrlandi fyrir fáeinum mánuðum breyttust aðstæður þar í landi og óvissa ríkti um hvert ástandið þar væri í raun. Í kjölfarið hófu systurstofnanir Útlendingastofnunar í nágrannalöndunum athuganir á stöðu mála þar. Af hálfu Útlendingastofnunar er litið til skýrslna þar um og lagt mat á þær.
Þetta segir Þórhildur Ósk Hagalín upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar í samtali við Morgunblaðið.
Hún bendir á að í Þýskalandi og Austurríki sé verið að vísa sýrlenskum afbrotamönnum úr landi, en ekki fólki sem sóst hefur eftir vernd í löndunum.
Útlendingastofnun er nú að meta aðstæður í Sýrlandi upp á nýtt og segir Þórhildur Ósk að þess sé vænst að niðurstaða fáist í hið nýja mat í september. Óafgreiddar umsóknir um alþjóðlega vernd frá Sýrlendingum séu nú um 20 talsins. Umsóknir fólks um alþjóðlega vernd sem þegar hefur fengið vernd í öðru Evrópulandi eru hins vegar afgreiddar með hefðbundnum hætti.