Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Eftirvænting liggur nú í lofti um hver verði árangur keppenda Íslands á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem nú stendur fyrir dyrum. Knapar á íslenskum hestum frá alls 22 löndum taka þátt í mótinu sem haldið verður í Birmenstorf í Sviss dagana 4.-10 ágúst.
Mótið er einn mikilvægasti vettvangur alls þess sem tengist íslenska hestinum; samanber mikinn fjölda þátttakenda. Fyrr í vikunni var tilkynnt um skipan í íslenska landsliðið, samkvæmt því vali sem þjálfarinn Sigurbjörn Bárðarson hafði með höndum.
Stefnur og straumar mætast
„Þetta er sterkur hópur og mikils er að vænta,“ segir Sigurbjörn í samtali við Morgunblaðið. Val landsliðshópsins var kynnt síðastliðinn miðvikudag í Hafnarfirði í höfuðstöðvum Icelandair – en Icelandair Cargo er einn af helstu bakhjörlum liðsins. „Heimsmeistaramótið er einstakur viðburður. Þarna mætast stefnur og straumar alls þess sem snýr að íslenska hestinum. Jafnframt er þetta mikilvægt markaðstorg, sem margir sækja til að gera viðskipti eða kanna stöðuna.“
Eftirvænting og gleði
Síðustu heimsleikar íslenska hestsins voru haldnir í Oirschot í Hollandi fyrir tveimur árum. Íslendingar náðu góðum árangri þar og sérstaka athygli vakti að fimm keppendur úr Rangárvallasýslu unnu þar heimsmeistaratitla. Fólk þar úr sveit er sannarlega áberandi í landsliðshópnum nú, enda þótt breiddin sé meiri.
„Við vandasamt val í landsliðið þarf að horfa til margra þátta. Taka þarf samtöl við marga, fylgjast með fólki, mæta á mót og svo framvegis. En nú liggur fyrir hvernig liðið er skipað og framhaldinu fylgir eftirvænting og gleði,“ segir Sigurbjörn.
Icelandair flýgur utan með alls 24 íslenska hesta þann 28. júlí næstkomandi. Landsliðið og fylgdarfólk þess fer utan um líkt leyti. Þá tekur við nokkurra daga undirbúningur en mótið í Oirschot hefst 5. ágúst og stendur í tæpa viku. Búast má við 10-15 þúsund áhorfendum á mótinu og þá að ekki færri en 1.000 manns frá Íslandi verði ytra.
Alþjóðlegur viðburður
Öðru fremur ber að líta svo á að mótið í Sviss sé alþjóðlegur viðburður sem endurspeglar vel hvaða vinsælda íslenski hesturinn nýtur erlendis. Áætlað er að til að mynda í Þýskalandi séu alls um 70 þúsund íslenskir hestar og tugir þúsunda slíkra í öðrum Evrópulöndum. Af því hefur orðið til í raun alveg sérstakur menningarheimur; sú veröld sem verður í hnotskurn í Birmenstorf nú í öndverðum ágústmánuði.
Elvar og Djáknar á leiðinni utan
Mótið er tilhlökkunarefni
„Hópurinn er frábærlega valinn og mótið er tilhlökkunarefni,“ segir Elvar Þormarsson landsliðsmaður. Fyrir tveimur árum keppti hann á HM í Hollandi á Fjalladís frá Fornusöndum og varð þá tvöfaldur heimsmeistari í gæðinga- og 250 m skeiði. Sá árangur veitti honum sjálfkrafa rétt til þátttöku á HM í Sviss nú, það er í fimmgangi á Djáknari frá Selfossi. Elvar hefur verið með Djáknar í þjálfun nú í þrjú ár, í samstarfi þar sem sterk taug hefur myndast milli knapa og hests. Slíkt hefur alltaf mikið að segja.
Að undanförnu hefur Elvar verið að undirbúa sig fyrir EM, en þar liggur mikil vinna að baki. Allt þarf að vera 100% áður en farið er með hrossin utan, það er til Belgíu þaðan sem svo verður haldið áfram á mótsstað í Sviss.
„Hvernig til tekst á HM hverju sinni segir mikið um hestamennskuna og hver þróunin er. Þar á ég við reið og þjálfun. Einnig sýnir þetta hvernig til hefur tekist við ræktun hesta,“ segir Elvar sem er þrautreyndur hestamaður.