Diljá Valdimarsdóttir
dilja@mbl.is
Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs hjá embætti ríkislögreglustjóra (RLS), segir flutninga embættisins af Skúlagötu 21 hafa tekist vel þrátt fyrir að flutt hafi verið út úr húsinu á „ofboðslega stuttum tíma“. RLS er nú á alls 11 stöðum á víð og dreif um höfuðborgarsvæðið.
Greint var frá því í apríl sl. að RLS þyrfti að flytja vegna myglu og raka í höfuðstöðvum sínum sem embættið hefur notað frá aldamótum. Starfsfólk embættisins hafði veikst og fóru nokkrir í veikindaleyfi vegna ástandsins þar.
Í kjölfarið flutti RLS tímabundið í húsnæði við Rauðarárstíg í Reykjavík en þar var utanríkisráðuneytið áður lengi til húsa.
Rannveig segir flutningana hafa tekist vel og að ekki hafi orðið rof á starfseminni. Húsnæðið við Rauðarárstíg sé tímabundið og leitað sé leiða til að finna hentugra húsnæði fyrir starfsemina. Tollhúsið hefur verið nefnt sem mögulegt húsnæði undir starfsemina, en Rannveig gat ekki tjáð sig frekar um það. Embætti ríkislögreglustjóra er á 11 stöðum og segir Rannveig það vissulega hafa áhrif á starfsemina.
„Það er alltaf dýrara að vera á mörgum stöðum. Framhaldið er í rauninni bara að leita að skrifstofu eða úrræði svo hægt verði að sameina starfsemina á ný.“
Spurð hvort embættið hyggist flytja aftur á Skúlagötu segir Rannveig húsnæðið ekki lengur henta starfseminni. Það sé í raun of lítið. Í ljósi þessa verður að finna annað og stærra húsnæði undir RLS.